Handbolti

Gummersbach vann stórsigur í Íslendingaslag | Arnór skoraði eitt í naumum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach.
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach. Twitter@vfl_gummersbach

Gummersbach vann öruggan átta marka sigur er liðið tók á móti Melsungen í Íslendingaslag þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld, 31-23. Á sama tíma skoraði Arnór Þór Gunnarsson eitt mark er Bergischer vann tveggja marka sigur gegn Minden og Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann tíu marka sigur gegn Wetzlar.

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, var með yfirhöndina gegn Melsungen strax frá upphafi leiks. Liðið náði fljótt sex marka forskoti og staðan var 18-11 þegar flautað var til hálfleiks.

Mest náðu heimamenn tíu marka forystu í síðari hálfleik og liðið vann að lokum afar öruggan átta marka sigur, 31-23. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir liðið, en Hákon Daði Styrmisson komst ekki á blað. Í liði Melsungen skoraði Elvar Örn Jónsson þrjú mörk og Arnar Freyr Arnarsson eitt.

Gummersbach situr nú í níunda sæti deildarinnar með tuttugu stig eftir 21 leik, jafn mörg stig og Melsungen sem situr tveimur sætum neðar og hefur leikið einum leik meira.

Þá skoraði Arnór Þór Gunnarsson eitt mark í naumum tveggja marka sigri Bergischer gegn Minden, 34-32, og Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann tíu marka sigur gegn Wetzlar, 34-24.

Bergischer situr í tíunda sæti deildarinnar með tuttugu stig, en Löwen situr í öðru sæti með 37 stig, jafn mörg og topplið Füchse Berlin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×