Körfubolti

Hafa enn ekki unnið eftir að þeir fengu Russell Westbrook til sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook spilar nú með liði Los Angeles Clippers en hann byrjaði tímabilið með Los Angeles Lakers.
Russell Westbrook spilar nú með liði Los Angeles Clippers en hann byrjaði tímabilið með Los Angeles Lakers. AP/David Zalubowski

Russell Westbrook tapaði mörgum leikjum með Los Angeles Lakers á leiktíðinni og það hefur ekkert breyst eftir að hann færði sig yfir í hitt NBA-liðið í borginni.

Westbrook samdi við Los Angeles Clippers á dögunum eftir að hann samdi sig út úr samningnum við Utah Jazz. Lakers sendi hann til Utah Jazz á lokadegi félagskiptagluggans en náði síðan samkomulagi um starfslok.

Clippers spilaði í nótt sinn þriðja leik með Westbrook innanborðs og úrslitin voru eins og í hinum tveimur eða tap.

Fyrstu tveir leikirnir töpuðust reyndar í framlengingu en leikurinn á móti Minnesota Timberwolves í nótt tapaðist með sjö stigum, 108-101.

Westbrook var í byrjunarliðinu og bauð upp á 14 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst á 28 mínútum.

Hann er með 16,0 stig og 9,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í Clippers búningnum en var með 15,9 stig og 7,5 stoðsendingar í leik í fyrstu 52 leikjunum með Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×