Íslenski boltinn

Nýi norski þjálfari KR-inga nær í mark­vörð sem hann þekkir vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simen Lillevik Kjellevold mun verja KR-markið í Bestu deild karla í sumar.
Simen Lillevik Kjellevold mun verja KR-markið í Bestu deild karla í sumar. Instagram/@simenlillevik

KR-ingar eru búnir að finna markvörð til að fylla í skarðið sem Beitir Ólafsson skilur eftir sig en nú styttist óðum í að Besta deild karla í fótbolta fari af stað.

Markvörðurinn sem spilar með KR í sumar heitir Simen Lillevik Kjellevold og er 28 ára gamall Norðmaður.

Fótbolti.net segir frá því að KR-ingar séu búnir að semja við kappann en eins að hann sé kominn til landsins og byrjaður að æfa með liðinu.

Beitir Ólafsson ákvað að setja fótboltaskóna á hilluna eftir síðasta tímabil en fyrir hjá liðinu er markvörðurinn Aron Snær Friðriksson sem var varamarkvörður KR-liðsins í fyrrasumar eftir að hafa komið til félagsins frá Fylki.

Kjellevold hefur spilað í Noregi allan ferilinn og þar á meðal hjá liðum eins og Stabæk, Kongsvinger og Strömmen. Hann lék síðast með Grorud IL í norsku b-deildinni þar sem hann fékk á sig 69 mörk í 30 leikjum.

Ole Martin Nesselquist, nýr þjálfari KR, þekkir Kjellevold mjög vel en hann fékk hann til Strömmen fyrir þremur árum síðan.

Kjellevold verður ekki fyrsti norski markvörður KR-inga því áður hafa þeir André Hansen og Lars Ivar Moldskred spilað með liðinu í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×