Skoðun

Að gefa og þiggja

Ragnar Schram skrifar

Sælla er að gefa en þiggja, segir máltækið. En af hverju ekki að gera bæði? Í sumar munu þau sem gáfu framlög til SOS Barnaþorpanna á Íslandi í fyrra þiggja endurgreiðslu frá Skattinum upp á samtals rúmar 200 milljónir króna*. Það eina sem styrktaraðilarnir þurfa að gera er að hafa styrkt málefnið á síðasta ári. Engin RSK eyðublöð eða -umsóknir þarf að fylla út. Við hjá samtökunum sjáum um það.

Of gott til að vera satt? Nei, hér er einfaldlega um að ræða ávöxt lagabreytinga sem tóku gildi síðla árs 2021. Framlög til SOS Barnaþorpanna og annarra skráðra almannaheillafélaga lækka nú tekjuskattsstofn þess sem gefur og leiðir þannig til endurgreiðslu frá Skattinum.

Árið 2022 er fyrsta heila árið síðan nýju lögin tóku gildi og það er áhugavert að sjá í fyrsta sinn hver fjárhæðin er til endurgreiðslu á fyrsta heila skattatímabilinu eftir þessa lagabreytingu. Samtals styrktu Íslendingar SOS Barnaþorpin um nálægt 600 milljónir króna í fyrra og í sumar munu þeir því fá þennan glaðning frá Skattinum í formi endurgreiðslu. Um 200 milljónir – það munar um minna! Þetta er óvæntur glaðningur fyrir marga því það vita ekki allir af þessari lagabreytingu.

En hvað þýðir þetta fyrir þig? Fyrir SOS foreldri sem styrkir eitt umkomulaust barn í barnaþorpi um 3.900 krónur á mánuði í heilt ár þýðir þetta um 16.000 króna endurgreiðslu frá Skattinum. Þú ert því í raun aðeins að leggja út um 2.600 krónur á mánuði til stuðnings við eitt barn. Hvernig sem þú ráðstafar þessari endurgreiðslu hafa Íslendingar í öllu falli fengið enn eina góða ástæðu til að láta fé af hendi rakna til góðra málefna. Yfirvöld eiga hrós skilið fyrir þessa mikilvægu lagabreytingu.

Höfundur er framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

* Sbr. lög nr. 32/2021. Upphæðin er gróflega reiknuð og gengið er út frá því að allir þessir einstaklingar hafi gefið a.m.k. 10.000 krónur til skráðra almannaheillafélaga á síðasta ári og að hámarki 350.000 (700.000 ef um hjón er að ræða). Upplýsingar um framlög til SOS Barnaþorpanna eru forskráðar í reit 155 í kafla 2.6 á tekjusíðu skattframtals.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×