Penttilä var elsti keppandinn á Norðurlandameistaramóti í eldri aldursflokkum en alls kepptu um 250 keppendur á mótinu sem fram fór í Laugardalshöll. Keppt var í tólf mismunandi greinum í aldursflokkum frá 35 til 99 ára.
Penttilä keppti í 60 metra hlaupi og hér að neðan má sjá sprett hans, á myndbandi sem Marta María Bozovic Siljudóttir, starfsmaður Frjálsíþróttasambandsins, tók upp.
Penttilä var sá eini í sínum aldursflokki, 95-99 ára, og vann því til gullverðlauna en hann hljóp 60 metrana á 19,32 sekúndum.
Næstur honum í aldri í 60 metra hlaupinu var Benedikt Bjarnarson sem er aðeins 87 ára gamall og hljóp á 12,93 sekúndum.
Penttilä er fyrrverandi tugþrautarmaður. Í viðtali við finnska miðilinn Iltalehti eftir mót í fyrra kvaðst hann einfaldlega enn njóta þess að keppa og vera innan um fólk með sams konar hugarfar og hann. Hann sagðist hafa heyrt vel í fagnaðarlátunum á því móti, líkt og vonandi í Laugardalshöll um helgina, en að sjónin hefði versnað og hann ætti erfitt með lestur.
Finnar urðu sigursælastir á mótinu um helgina og unnu alls 81 gullverðlaun en Íslendingar komu næstir með 51 gull. Svíar fengu 49 gull, Norðmenn 33 og Danir 21. Á mótinu voru einnig keppendur frá Litháen, Frakklandi, Bretlandi, Spáni, Bandaríkjunum, Hollandi, Slóvakíu, Írlandi og Ítalíu.
Öll úrslit frá mótinu má finna hér. Myndir frá mótinu má sjá á myndasíðu Frjálsíþróttasambandsins.