Zlatan kom inn á sem varamaður fyrir Oliver Giroud á 74. mínútu og tók þátt í mikilvægum sigri en Milan er nú með 47 stig líkt og grannarnir í Inter, í 2.-3. sæti. Langt er þó í Napoli sem á meistaratitilinn vísan, með 65 stig á toppnum.
Zlatan sló met hjá AC Milan með því að spila í gær því hann er elsti leikmaður í sögu félagsins til að spila leik í A-deildinni. Zlatan spilaði leikinn 41 árs og 146 daga og sló met varnarmannsins Alessandro Costacurta sem var 41 árs og 25 daga þegar hann spilaði kveðjuleik sinn í deildinni.
Zlatan bætti við enn einum titlinum á sínum ferli þegar hann varð ítalskur meistari með Milan á síðustu leiktíð en þurfti svo að fara í aðgerð strax eftir tímabilið vegna hnémeiðsla. Aðgerð sem hann frestaði til að verða meistari. Hann tjáði sig lítillega um þann erfiða tíma sem fór í að koma sér aftur á fótboltavöllinn.
Lofaði þjálfaranum að fresta aðgerðinni
„Ef ég ætti að útskýra allt myndi ég þurfa að standa hérna í fleiri klukkustundir. Ég hef þurft að þjást mikið, meira að segja síðustu sex mánuðina á síðasta tímabili. Ég vildi hjálpa og gat ekki verið inni á vellinum. Þegar maður er ekki heill heilsu er erfitt að hjálpa liðinu. Ég hefði getað farið í þessa aðgerð sex mánuðum fyrr en ég vissi að það væri komið að okkur að vinna ítalska meistaratitilinn,“ sagði Zatan við DAZN.
„Þá lofaði ég Pioli [Stefano Pioli, þjálfara Milan] að fara ekki í aðgerð. Ég hef aldrei fórnað svona miklu fyrir titil. Á sama tíma var þetta erfitt ár með Mino [Raiola, umboðsmann Zlatans sem dó]. Það eru svo margar manneskjur sem hjálpa mér og veita mér styrk. En þegar ég er heill heilsu er ég sterkari en allir aðrir,“ sagði Zlatan.