Innlent

Fylgjast vel með Mýr­dals­jökli vegna skjálfta­hrinunnar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Skjálftahrinur eru ekki óalgengar í Mýrdalsjökli. Veðurstofa fylgist hins vegar grannt með virku eldstöðvunum.
Skjálftahrinur eru ekki óalgengar í Mýrdalsjökli. Veðurstofa fylgist hins vegar grannt með virku eldstöðvunum. Vísir/Vilhelm

Stutt skjálftahrina hófst í Mýrdalsjökli fyrr í kvöld. Sjö skjálftar hafa mælst, sá stærsti 2,6 að stærð.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að flestir skjálftarnir hafi mælst klukkan hálf átta í kvöld. Fimm skjálftar hafa mælst yfir 2,0 að stærð.

Virknin var mest klukkan 19:30.Veðurstofan

„Við höfum fengið svona virkni reglulega í Mýrdalsjökli þannig að þetta er ekki óalgengt. Við höfum verið með stærri skjálfta – síðast í desember,“ segir Einar Bessi. 

Nokkrir skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í október og nóvember í fyrra. Virknin virðist vægari nú.

„En af því þetta er Mýrdalsjökull og Katla - virk eldstöð, þá er alltaf mikil vakt á þessu og náið fylgst með aðstæðum. Eins og staðan er núna þá hafa ekki bæst við skjálftar síðan klukkan hálf átta,“ segir Einar Bessi að lokum.


Tengdar fréttir

Sterkur skjálfti mældist í Kötlu

Rétt upp úr klukkan ellefu mældist skjálfti af stærðinni 3,8 í norðanverðri Kötluöskju. Ein tilkynning hefur borist um að skjálftinn hafi fundist í Drangshlíðardal.

Snarpur skjálfti í Mýr­dals­jökli

Skjálfti upp á 3,9 varð í Mýrdalsjökli klukkan 19:55 í kvöld. Að minnsta kosti tveir aðrir yfir þremur að stærð hafa mælst í kjölfarið. Skjálftarnir eru þeir stærstu sem mælst hafa síðan í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×