Menning

Tuttugu og fimm þúsund bækur á fjórum dögum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar

Bækur flæða um húsakynni Knattspyrnusambands Íslands þar sem bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda fer nú fram. Nú þegar hafa selst 25.000 bækur á fjórum dögum. Stefnan er sett á hundrað þúsund.

Félagið opnaði bókamarkaðinn 23. febrúar og opið er til níu öll kvöld. Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri bókamarkaðar Félags íslenskra bókaútgefanda, segir að vel hafi gengið.

„Það hefur gengið vonum framar og í raun erum við að slá öll met – okkur að óvörum eiginlega, miðað við hvernig veðurfarið og ástandið í þjóðfélaginu hefur verið. En það hefur gengið mjög vel.“

„Rosalega mikil breidd“

Hún segir að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á markaðinum.

„Það er rosalega mikið breidd. Það eru engir svakalegir toppar eins er fyrir jól, heldur mikil breidd. Það eru eitthvað um 6.300 titlar og það eru nánast allir að seljast eitthvað. En þó eru auðvitað einhverjir sem seljast mest,“ segir Bryndís.

Hún segir að prjónabók hafi slegið óvænt í gegn, sem sú þriðja mest selda. Á eftir komi Depill litli, heimilishundurinn knái, í annað sæti. Vonarstjarnan Pedro Gunnlaugur Garcia með bókina Lungu hefur slegið í gegn en höfundurinn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir verkið. Bókin er sú mest selda á markaðinum til þessa.

„Markmiðið okkar er að selja 100 þúsund bækur – eða eina bók inn á hvert heimili. Við erum komin með 25 þúsund eftir daginn í dag þannig að við krossum fingur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×