Körfubolti

Áttfaldur áhugi á miðum á leiki troðslumeistarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
WNBA goðsögnin Lisa Leslie tekur mynd af sér með Mac McClung á Stjörnuhelginni.
WNBA goðsögnin Lisa Leslie tekur mynd af sér með Mac McClung á Stjörnuhelginni. AP/Rick Bowmer

Margt getur gerst á einni viku í lífi íþróttamanns og körfuboltamaðurinn Mac McClung er gott dæmi um það.

Fyrir einni viku þá var McClung ekki að spila í NBA-deildinni en hann fékk samning hjá Philadelphia 76ers, vann síðan troðslukeppnina á Stjörnuleiknum og fékk í framhaldinu samning hjá Puma.

Verðlaunaféð fyrir að vinna troðslukeppnina var næstum því jafnmikið og hann hafði unnið sér inn á öllum ferlinum. Með nýjum samningi við Puma er staðan allt önnur fjárhagslega.

Fjölmargir hafa líka talað um að McClung hafi bjargað troðslukeppninni með magnaðri frammistöðu en hann stóð sig frábærlega. Nítján af tuttugu dómurum gáfu honum fullt hús stiga.

Nú vita flestir NBA-áhugamenn hver Mac McClung er. Strákurinn hefur verið lengi að reyna að láta NBA-drauminn rætast og hefur verið til reynslu hjá mörgum liðum. Hann hefur náð tveimur NBA-leikjum á ferlinum, einum með Chicago Bulls og einum með Los Angeles Lakers. McClung var með 6 stig í eina leik sínum með Lakers sem var á tímabilinu í fyrra.

McClung hefur verið að spila með Delaware Blue Coats í NBA G League á þessari leiktíð og eftir að hann skaust á stjörnuhimininn hefur áhugi á því liði aukist til mikillar muna.

Delaware Blue Coats er fulltrúi Philadelphia 76ers í NBA G League.

Nýjustu fréttir úr miðasölu Blue Coats er að áhuginn á miðum á leiki liðsins hafi áttfaldast eftir að McClung bauð upp á troðslusýninguna á Stjörnuleiknum um síðustu helgi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×