Innlent

Ungmennabúðum á Laugarvatni lokað vegna myglu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir frá árinu 2005 og eru þær fyrir nemendur í níunda bekk grunnskóla um allt land.
UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir frá árinu 2005 og eru þær fyrir nemendur í níunda bekk grunnskóla um allt land. umfí

Starfsemi Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni leggst af á meðan ráðist verður í umfangsmiklar framkvæmdir vegna myglu og rakaskemmda sem greinst hafa í húsnæði ungmennabúða félagsins á staðnum. 

Ljóst er að sögn Sigurðar Guðmundssonar, forstöðumanns Skóla og ungmennabúða UMFÍ, að einhverjir hópar grunnskólabarna sem áttu pantaða dvöl í Ungmennabúðunum þurfi að sitja heima.

„Okkar fyrsta hugsun er að huga að öryggi og heilsu starfsfólks búðanna sem og barnanna og kennaranna sem koma í ungmennabúðirnar. Við höfum farið yfir heildarúttektina með forsvarsfólki Bláskógabyggðar, fundað með stjórnendum og starfsfólki UMFÍ og haft samband við þá grunnskóla sem eiga pantaða dvöl á Laugarvatni til að upplýsa um þessa stöðu,“ er haft eftir Sigurði í tilkynningu UMFÍ.

Vilja grípa strax til úrbóta

Húsnæði Ungmennabúða UMFÍ er í eigu Bláskógabyggðar og sér UMFÍ um reksturinn. Í tilkynningu segir að húsnæðið hafi verið skoðað í framhaldi af ábendingum. 

„Niðurstöðurnar voru á þann veg að bregðast þarf við stöðunni. Raki mældist í steyptum útveggjum og nokkuð var um skemmdir sem m.a. má rekja til óþéttra glugga. Myglumyndun hefur líka greinst í húsinu. Allir sem málið snerta voru sammála um að bregðast þurfi við og grípa til aðgerða til að laga húsnæðið. Verið er að teikna upp viðbrögð og aðgerðir. Þótt það sé sárt þá verðum við að loka starfseminni tímabundið.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×