Greint er frá ráðningu Jónu Árnýjar á vef Fjarðabyggðar. Þar segir að hún hafi víðtæka stjórnunarreynslu og sérþekkingu á sviði rekstrar, fjármála og þróunar. Jóna, sem kemur frá Norðfirði, hafi starfað sem ráðgjafi hjá KPMG árin 2005-8, síðan sem fjármálastjóri Fjarðabyggðar í tvö ár og þá önnur tvö ár í innri endurskoðun Alcoa Fjarðaál. Hún starfaði síðan sjálfstætt þar til hún varð framkvæmdastjóri Austurbrúar vorið 2014.
Að því er fram kemur á vef Fjarðarbyggðar hefur ekki verið gengið frá því endanlega hvenær Jóna Árný komi til starfa. „Gengið verður endanlega frá ráðningarsamningi við Jónu Árný á næstu dögum og hann lagður fyrir bæjarstjórn til formlegrar samþykktar,“ segir í tilkynningu.
Eins og áður segir óskaði Jón Björn Hákonarsson eftir því að láta af störfum sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar á mánudag. Degi síðar var Jón Björn sakaður um að greiða ekki fasteignargjöld af óleyfisfasteignum í sveitarfélaginu. Greint var frá því að bæjarfulltrúar hafi fengið erindi frá íbúa sem varðarði sumarbústaðarlóðirnar Fönn 1 til 4 í Fannardal en lóðirnar eru í eigu Jóns Björns og fjölskyldu hans. Samkvæmt erindinu hafi engin gjöld verið greidd af fasteignunum, einungis af lóðunum sjálfum.
Engin mannvirki eru skráð á lóðirnar og staðfesti Snorri Stykrársson, fjármálastjóri Fjarðabyggðar, við Fréttablaðið að sótt hafi verið um byggingarleyfi á lóðunum en því hafi verið hafnað. Hús hafi verið byggð á lóðunum þrátt fyrir þetta.
Björn Jón hafnar því að ástæða afsagnarinnar hafi verið fyrrgreint erindi. Hann segist orðinn þreyttir eftir að hafa verið lengi á sveitastjórnarvettvangnum.