Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en Arctic Fish, annað stóru vestfirsku eldisfyrirtækjanna, hafði væntingar um að geta hafið eldi í Ísafjarðardjúpi fyrir tveimur árum eftir að hafa undirbúið ferlið frá árinu 2016.
„Við erum ennþá að bíða, því miður, eftir leyfinu í Ísafjarðardjúpi. Það eru tvö ár síðan Skipulagsstofnun lauk við umsögn um umhverfismatið okkar,“ segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Arctic Fish, í viðtali við Hafþór Gunnarsson, fréttaritara Stöðvar 2.

Eftir umsögn Skipulagsstofnunar taldi Arctic Fish óhætt að byrja að ala upp laxaseiði fyrir Djúpið í seiðastöð sinni í Tálknafirði en fyrirtækið er með sjókvíaeldi í sex fjörðum Vestfjarða.
Vegna eldis í Djúpinu segir Daníel fyrirtækið einnig búið að fjárfesta í tækjum og búnaði fyrir um einn milljarð króna, sem ekki nýtast meðan leyfið bíður.
„Mast, eða Matvælastofnun, og Umhverfisstofnun hefur ekki tekist að gefa út leyfið. En það er nú alltaf svona einhvern veginn í næstu viku hjá þeim,“ segir Daníel.

Óvænt krafa um áhættumat siglinga í byrjun árs setti ferlið í uppnám.
„Og vonandi tekst bara þeim aðilum, sem bera ábyrgð á því, að klára það hratt og vel. Því að við erum tilbúin núna með eina og hálfa milljón seiða í Tálknafirði sem eiga að fara í Djúpið í sumar,“ segir Daníel en hvert seiði segir hann kosta 150 krónur.
Í fyrra var sama staða uppi, þá tókst fyrirtækinu að selja öðrum seiðin, en núna eru örlög þeirra óviss.
„Við vonum svo sannarlega að stofnanirnar hafi lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar, eins og við, og vinni eftir lögum og fari núna að gefa út leyfin,“ segir Daníel.

Andstæðingar hafa kallað eftir því að leyfisveitingar verði stöðvaðar eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi birtist fyrr í mánuðinum.
„Hún var alls ekki áfellisdómur yfir eldinu,“ segir Daníel og segir að í henni hafi verið ábendingar til stjórnvalda sem beri að fagna.
„Við viljum náttúrlega bara vinna í sátt við umhverfi og samfélag og teljum okkur hafa gert það. Þannig að við bara vonum það að þessi skýrsla leiði til úrbóta,“ segir Daníel.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: