Það var snemma ljóst í hvað stefndi í Árbænum en Óskar Borgþórsson kom Fylki yfir strax á 6. mínútu leiksins. Benedikt Daríus Garðarsson tvöfaldaði svo forystuna á 24. mínútu en hann átti heldur betur eftir að koma við sögu.
Benedikt Daríus nældi sér í gult spjald áður en fyrri hálfleik lauk og kom Fylki 3-0 yfir snemma í síðari hálfleik. Hann fullkomnaði svo þrennu sína á 84. mínútu og Pétur Bjarnason skoraði fimmta mark heimamanna aðeins mínútu síðar.
Lokatölur 5-0 og Fylkir nú með þrjú stig eftir að tapa fyrir KA á dögunum.
Í sama riðli vann Bestu deildarlið KA 2-1 útisigur á Fjölni sem spilar í Lengjudeildinni. Pætur Peterson kom KA yfir eftir stundarfjórðungsleik og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Daníel Hafsteinsson kom KA í 2-0 undir lok leiks áður en Bjarni Gunnarsson minnkaði muninn í uppbótartíma.
KA er á toppi riðilsins með sex stig að loknum þremur leikjum líkt og Keflavík.