Lífið

Fann sjálfa sig eftir að hún kom út

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Leikkonan Íris Tanja Flygenring ræddi við blaðamann um lífið og listina.
Leikkonan Íris Tanja Flygenring ræddi við blaðamann um lífið og listina. Vísir/Vilhelm

Það er nóg um að vera hjá leikkonunni Írisi Tönju Flygenring sem fer með aðalhlutverk í leikritinu Samdrættir sem frumsýnt er í kvöld í Tjarnarbíói. Samhliða leiklistinni sinnir Íris Tanja fræðslustarfi hjá Samtökunum ‘78. Blaðamaður hitti hana í kaffi og þær ræddu um allt milli himins og jarðar, þar á meðal um leiklistina, listina, hinsegin samfélagið og það að koma seint út úr skápnum.

Barist með orðum

Samdrættir er verk eftir leikritahöfundinn Mike Barlett, sem skrifaði meðal annars verkið At sem var sýnt í Borgarleikhúsinu og Kristín Eysteins leikstýrði en sýningin fór fram í boxhring. 

Af því orðin eru svo miklar skylmingar, Bartlett er svo sterkur með orð og er alltaf að berjast með orðum, hann notar þau sem vopn,“ segir Íris Tanja um verkið. 

Orðin eru notuð sem vopn í verkinu en hér má sjá Þórunni Lárusdóttur og Írisi Tönju í karakter. Dóra Dúna

Þórunn Lárusdóttir leikur á móti henni en Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir verkinu og má segja að kvennakrafturinn sé einkennandi.

„Orðin eru svo marglaga, karakter getur verið að segja sömu setninguna í gegnum verkið en það er alltaf mismunandi meining á orðum. Í þessu verki er Bartlett líka að sýna valdið sem yfirmaður býr yfir til þess að hægt og rólega brjóta karakterinn niður. 

Þetta er svona að snúa upp sannleikanum og hún fer að efast um hvað henni finnst mikilvægt og hvað það er sem hún vill.“

Efast um raunveruleikann

Íris Tanja segir stöðugt verið að rugla í karakternum sem lætur hana efast um raunveruleikann og sig sjálfa.

„Það er svo áhugavert að sjá hvernig manneskja getur farið inn í einhverjar aðstæður sem ágætlega sterk manneskja, ný á þessum vinnustað, carrier driven og langar að standa sig vel. Svo gerist lífið svolítið og það molnar bara undan henni hægt og rólega.“

Hún segir að áhorfendur geti staðsett þetta samband á ólíka vegu. Sem yfirvald og fólkið, ástarsamband, vinátta og margt fleira.

„Við segjum aldrei nákvæmlega hvar við erum þannig þetta er svo opið. Þetta er svona svolítið það sem við förum inn á. 

Það er líka ekkert augljóst en hver sem er getur lent í kúgun eða ofbeldissambandi. Þetta gerist svo hægt og það er stöðugt verið að leita að veikum punktum.“
Valdadýnamík spilar veigamikið hlutverk í Samdráttum.Dóra Dúna

Manneskjan er aldrei eitthvað eitt

Ferlið hófst þegar Þóra Karítas og Íris Tanja voru að leika saman í Blóðugu kanínunni eftir Elísabetu Jökuls í fyrra.

„Þá hefur hún samband við mig og segir að hún sé að leita að leikkonu til að leika á móti Þórunni Lár fyrir ákveðið verk og biður mig að lesa það, sem og ég geri.“

Íris Tanja segir að verkið hafi strax náð til sín.

„Þetta var rosa ruglingslegt og margar endurtekningar en ég var bara: Vá hvað það er mikill djús þarna. Svo förum við á samlestur síðustu páska, byrjum að æfa smá í haust í mismunandi húsnæðum og svo fórum við niður á svið í síðustu viku.“

Hún segir að þá hafi allt komið saman og sprungið út.

Handritið á Samdráttum náði strax til Írisar Tönju.Dóra Dúna

„En þessi vinna sem við fengum við borð, að vinna í textanum, þénaði verkinu svo vel af því við náðum að skilja allan undir textann og gátum fundið út hvernig við gætum til dæmis verið beittari á ákveðnum stöðum, hvað er meira spennandi, er hún að ljúga eða segja satt? Hvernig byrja ég sem karakter og enda?

Þá gátum við fundið út úr öllum þessum núönsum og erum loksins komnar hingað í frumsýningarviku sem er geggjað. Við fáum að halda áfram að djúsa og gera fleiri lög, því manneskja er aldrei eitthvað eitt.“

Eilífðarverkefni leikara

Íris Tanja segir eilífðarverkefni hjá leikara að fjarlægja karakterinn frá sjálfri sér og finna jafnvægið. 

„Ég get ekki algjörlega aðskilið þetta. Ég varð alveg smá rugluð fyrstu vikurnar sem við vorum á heimaæfingum þegar við vorum að finna fyrir karakternum og þetta triggeraði eitthvað gamalt. Því þegar þú ferð að fletta ofan af alls konar þá ferðu óvart kannski inn í eitthvað frá þér.“

Íris Tanja segir það eilífðarverkefni leikara að þekkja mörkin sín og hleypa karakternum ekki of nálægt.Vísir/Vilhelm

Hún segir þá mikilvægt að læra hvert maður getur sótt tilfinninguna en að sama skapi hvernig maður brynjar sig svo fyrir því.

„Ég veit hvert ég get sótt þetta, ég hef einhverja svipaða reynslu, en um leið og þú ferð að nota alltaf þína reynslu í allt þá verður eitthvað rof, gagnvart áhorfendum líka. 

Þá verður þetta of persónulegt og þú þarft alltaf að geta tekið þína persónulegu reynslu út úr þessu, þó þú getir notað eitthvað krydd úr þessu því þú verður að geta aðskilið það.

Ég held að ef þú gengur endalaust á þig þá brennurðu út frekar fljótt í þessu starfi.

En ég held líka að það sé eilífðarverkefni því karakterar eru svo mismunandi og þeir koma alltaf mismunandi við þig. Stundum held ég bara að nú sé ég alveg komin með þetta, svo fer ég í annan karakter og þá er ég bara: Ó, þetta er annað svæði í mér sem er verið að snerta.“

Sýningin Samdrættir er frumsýnd í kvöld, föstudaginn 10. febrúar, í Tjarnarbíói.Dóra Dúna

Sjálfsmildið mikilvægt

Hún leggur því mikið upp úr því að aðskilja sig frá karakternum.

„Auðvitað verður álag, maður verður þreyttur og kannski er þá styttri þráður en þá þarf maður að reyna að vera góður við sig og vera með umburðarlyndi í eigin garð. 

Þegar maður man það ekki sjálfur þá er mikilvægt að vera með fólk í kringum sig sem minnir mann á, hey þú ert undir svakalegu álagi, mundu að þú ert að gera þitt besta og sýndu sjálfri þér mildi. Því maður er svo fljótur að gleyma því.“

Óþolandi bíófélagi

Íris Tanja sækir innblástur víða í sinni listsköpun og er stöðugt að prófa eitthvað nýtt.

„Ég elska að horfa á kvikmyndir og er náttúrulega óþolandi að horfa á kvikmyndir með því ég einblíni á hvert einasta smáatriði. Ég er algjör lúði, ef ég horfi á eitthvað sem mér finnst gott þá fer ég á Youtube og reyni að finna öll viðtöl við leikarana til að sjá hvernig þau undirbjuggu sig.“

Íris fór á sína fyrstu Sinfóníutónleika um daginn en tengdafaðir hennar bauð fjölskyldunni.

„Það voru tvö verk þarna sem gjörsamlega snertu mig og fóru inn í kjarnann minn. Það var rosalegur píanóleikari þarna sem var bara dansandi við flygilinn. Það er svo gott að finna annan miðill.“

Hún skrifar einnig og tekur myndir en Elín unnusta hennar gaf henni gamla myndavél í jólagjöf.

„Ég fór þá að skoða meira, fylgjast meira með fólki, horfa meira á. Eftir að ég var farin að fylgjast meira með nú-inu þá allt í einu gat ég byrjað að skrifa aftur eftir ritstíflu. Þannig ég þarf stundum að leita í aðra listmiðla.

Svo er það í raun sjálfsvinna. Það er rosa mikið það að reyna að kynnast sjálfri sér eins vel og maður getur. Ég fer alltaf að hugsa hvernig er þessi manneskja í sálfræðitíma? Hvaða lög eru þarna? Er þetta manneskja sem fer aldrei í þerapíu og þá af hverju?“

Sjálfsvinnan er mikilvægur innblástur í lífi Írisar Tönju.Vísir/Vilhelm

Ástin forsenda alls

Aðspurð hvað sé sjálfsvinna fyrir henni segir Íris:

„Ég held það sé bara að reyna að vinna eins mikið í sjálfri sér og hægt er. Mér var kennt að við erum hér á þessari jörðu til að kynnast okkur, elska okkur sjálf og elska aðra. Alveg sama hver það er. Ég trúi því að það sé ástæðan fyrir því að við erum hérna. 

Í raun er ég alltaf að reyna að kynnast sjálfri mér, svo gerist lífið og hlutir breytast og þá þarf ég alltaf að kynnast mér betur aftur.

Ég er mjög viðkvæm og ég þarf að velja hvenær ég er í stakk búin til að taka við nýjum upplýsingum og áreiti, þá sæki ég mér upplýsingar og veit hvert mitt limit er.“

Fræðslustarf hjá Samtökunum ‘78

Íris byrjaði að starfa hjá Samtökunum ‘78 síðasta sumar.

„Þetta var í kringum Pride í Noregi og orðræðan hjá íslenskum unglingum gagnvart hinsegin fólki sem og þetta bakslag í fordómum fór að stækka fyrir mér eftir að ég kom út úr skápnum. Ég ólst bara upp við að fara á Pride með fjölskyldunni frá því ég var fimm ára og það var fullt af samkynhneigð í kringum mig. 

Allir voru bara eins og þeir eru og ég var alin upp við að elska fólk eins og það er. Þannig að fá svona sterkt hina hliðina sem ég var ekki búin að alast upp við, það var smá sjokk. Að átta sig á því að það er raunverulega svona mikið enn í gangi.“

Kunningjakona Írisar, Tótla, er fræðslustýra hjá Samtökunum ‘78.

„Hún er með barn á sama leikskóla og dóttir mín er á. Hún var búin að vera með fræðslu í leikskólanum og ég set mig í samband við hana, sagði að ég gæti ekki setið hjá og spurði hana hvort það væri eitthvað hægt að gera til að hjálpa. Þá býður hún mér að vera fræðari. 

Ég varð að vita að ég gæti gert eitthvað.“

Hún segir sýnileikann að sjálfsögðu mikilvægan enda hafa hún og Elín Ey unnusta hennar verið mjög sýnilegar. Hana hafi þó langað að fara lengra.

„Ég vil nota mitt platform og geta haft áhrif til góðs. Ég byrja í undirbúningi og upplifði að mér fyndist ég ekki vita nógu mikið um þetta, upplifði geðveikt imposter syndrom og hugsaði hvað hef ég að segja um þetta, það er svo stutt síðan ég kom út úr skápnum.

Þá er mér sagt að þetta snúist bara um að vera manneskja, þó þú sért nýkomin út úr skápnum. Talaðu þá líka um það, hver er ástæðan fyrir því?“

Sterk afneitun

Blaðamaður spyr hana þá hver sé ástæðan fyrir því að hún kom seint út úr skápnum.

„Ég held að ástæðan sé bara ofboðslega sterk afneitun.“

Hún fór fyrst að hugsa um þetta tólf ára gömul.

„Svo fer ég í menntaskóla og reyni að fitta inn og einhvern veginn gaf þessu ekki gaum eða pláss en var alltaf skotin í stelpum reglulega.“

Íris átti samtal við vin sinn á þessum tíma sem sagði henni að hún væri að öllum líkindum lesbía.

„Ég hélt bara að fólk yrði almennt skotið í alls konar fólki en gaf því ekki rými hjá mér. Svo kynnist ég bara barnsföður mínum þegar ég er 19 ára, ég verð ófrísk mjög hratt og á fyrsta barnið mitt þegar ég er tvítug. 

Ég einhvern veginn bara í því, að ala upp barn, sjá um heimili og mennta mig. 

Ég ætlaði aldrei að skilja, skilnaðarbarns syndrom, og ég á yndislegan barnsföður sem er besti vinur minn. Við áttuðum okkur svo á því að við værum meiri vinir en ástfangin og vildum ekki að það myndi þróast í það að við gætum ekki verið vinir. Þannig við ákváðum að skilja og ala börnin okkar upp á tveimur heimilum sem fjölskylda.“

„Velkomin heim í sjálfa þig“

„Eftir það er ég að reyna að átta mig á því hver ég er sem manneskja en ekki sem þetta hlutverk sem ég var einhvern veginn alltaf að reyna að fylla upp í. 

Þá bara smátt og smátt fer ég bara að finna að það var eitthvað, ég var rosalega leitandi og svo kynnist ég Elínu.“

Hún segist hafa upplifað stórtæk tímamót við það.

„Þá meikaði allt í einu allt sens. Eins og púsl sem féll allt í einu á réttan stað. 

Ég fékk ótrúlega góð viðbrögð og margir vinir og vinkonur sem sögðu bara: About damn time. Þau vissu þetta áður en ég vissi þetta.

Svo fer ég að finna fyrir alls konar viðbrögðum hjá öðru fólki í kringum mig, fólk sem átti að vera mér mjög náið, sem hættir að tala við mig. Og það var alveg áfall. En ég á svo yndislega mömmu, pabba og bræður.“

Þegar Íris sagði barnsföður sínum frá Elínu þá vissi hann af því en vildi leyfa henni að segja sér þetta á hennar tíma.  

„Hann sagðist líka aldrei hafa séð mig svona hamingjusama og það væri það sem hann vildi fyrir börnin sín, að eiga hamingjusama mömmu.

Pabbi sagði velkomin heim í sjálfa þig. 

Mamma sagði ég elska þig nákvæmlega eins og þú ert og vil bara að þú sért hamingjusöm og þið eruð öll í svo miklu flæði í dag, sem henni fannst frábært. Svo var ég mjög stressuð að segja stráknum mínum þetta en það fór mjög vel.

Hann sagði að það væri svolítið breyting og ég sagði að öll viðbrögð væru velkomin og allar tilfinningar. Við erum með svona reglu að það má taka pásu og hann fer inn í herbergi og þremur tímum seinna kemur hann fram og spyr hvort hann megi frá sér bragðaref.“

Þau borða saman bragðaref og Íris spyr hann hvort hann sé búinn að hugsa þetta eitthvað meira.

„Og hann sagði bara já ég er búinn að hugsa þetta. Fyrst var ég bara vá það verður svolítið mikil breyting. En núna finnst mér þetta bara æði og hvenær má ég hitta hana? Þannig þetta tók hann þrjá klukkutíma,“ segir hún brosandi.

Orð hafa áhrif

Það er mikið um að vera hjá Írisi Tönju sem mun halda áfram að sinna fræðslustarfinu samhliða ýmsum öðrum spennandi verkefnum tengdum leiklistinni.

„Það er yndisleg að hitta þessa krakka í fræðslunni og maður finnur fyrir rótgrónni sýn hjá börnum sem kemur frá umhverfinu þeirra og maður finnur líka að það er sársauki.“

Hún segist hafa fundið fyrir bakslagi í orðræðu í garð hinsegin fólks sem hefur meðal annars verið rekið til einangrunar tengdri kórónufaraldrinum og aukinni samfélagsmiðlanotkun.

„Samskipti hjá ungu fólki fara svo mikið fram í gegnum samfélagsmiðla og ég veit ekki hvort það taki svolítið frá þeim að það sem þú skrifar hefur samt áhrif þó þú standir ekki fyrir framan manneskjuna og segir þetta. 

Þannig ég er að reyna að koma því svolítið að hjá fólki, að orð hafa áhrif. Þó þú kommentir eitthvað og skrollir svo áfram og horfir á fimm myndbönd þá situr þetta eftir hjá hinni manneskjuna.

Megnið af þessum krökkum skilja ekki orðin sem þau eru að nota eða merkinguna á bak við það. Ég reyni að fá þau til að hækka meðvitundina fyrir því að orð hafa merkingu og þau hafa áhrif. 

Þegar ég var á svipuðum aldri og margir sem ég er með fræðslu fyrir fór ég fyrst að velta því fyrir mér hver ég væri en það voru svo fáar hinsegin fyrirmyndir.“
Fjölbreyttar fyrirmyndir og aukinn sýnileiki skiptir miklu máli að sögn Írisar Tönju. Vísir/Vilhelm

Aukinn sýnileiki og fjölbreytileiki

Hún segir að steríótýpur hafi verið ríkjandi á þeim tíma sem erfitt var að samsama sig við.

„Ég hugsaði að ég vildi eiga börn, vera leikkona, dansari og vissi ekki um neina lesbíu sem væri þannig og þá gæti ekki verið að ég sé lesbía. Það var svo lítill sýnileiki.“

Hún segir því mikilvægt að leggja áherslu á að allt sé hægt.

„Það má allt, það má vera ekki viss, skipta um skoðun og flakka fram og til baka. Einn daginn gætum við ekki þurft skilgreiningar en þangað til sá dagur kemur þurfum við þær líka til að fólk átti sig á því að það er ekki eitt. 

Þegar það er manneskja sem þú sérð opinberlega sem þú tengir við og getur samsvarað þig við, við þurfum það. Ég trúi því að þessi börn sem ég hitti séu framtíðin og þau munu skapa betri heim þar sem allir geta fengið að vera það sem þau eru,“ segir Íris að lokum.


Tengdar fréttir

Elín Ey og Íris Tanja nýtt par

Tónlistarkonan Elín Eyþórsdóttir og leikkonan Íris Tanja Flygenring eru nýtt par. Parið byrjaði nýlega saman og eru þær býsna lukkulegar með hvor aðra. Íris Tanja hefur stutt Elínu í gegnum Söngvakeppnina og er ánægð með árangurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×