Körfubolti

Skrifaði undir risa­samning en spilaði síðan fyrir fimm lið á fimm árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook hefur spilað sinn síðasta leik með Los Angeles Lakers liðinu.
Russell Westbrook hefur spilað sinn síðasta leik með Los Angeles Lakers liðinu. AP/Godofredo A. Vásquez

Russell Westbrook er enn á ný á flakki á milli liða í NBA deildinni í körfubolta eftir að Los Angeles Lakers skipti honum til Utah Jazz.

Með þessum skiptum þá nær Westbrook því að spila fyrir fimm mismunandi félög eftir að hafa skrifað undir fimm ára risasamning við Oklahoma City Thunder árið 2017.

Westbrook var þá nýkrýndur mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar eftir að hafa fyrstur manna í 55 ár náð því að vera með þrennu að meðaltali í leik. Westbrook var með 31,6 stig, 10,7 fráköst og 10,4 stoðsendingar að meðaltali á 2016-17 tímabilinu með Thunder.

Eftir tímabilið þá framlengdi Westbrook samning sinn um fimm ár og fyrir þessi fimm ár þá fékk hann 205 milljónir dollara eða 28,9 milljarða íslenskra króna.

Samningurinn var frá og með 2018-19 tímabilinu og það tímabil spilaði hann með Oklahoma City Thunder.

Síðan þá hefur Westbrook hins vegar flakkað á milli liða. Hann fór fyrst til Houston Rockets, þá til Washington Wizards, svo til Los Angeles Lakers og nú loksins til Utah Jazz.

Þrátt fyrir að fá 47 milljónir Bandaríkjadala í laun fyrir þetta tímabil, 6,6 milljarða íslenskra króna, þá kom hann inn af bekknum hjá Los Angeles Lakers.

Westbrook var með 15,9 stig, 6,2 fráköst og 7,5 stoðsendingar að meðaltali inn af bekknum á þessu tímabili. Hann spilaði 28,7 mínútur í leik en byrjaði bara 3 af 52 leikjum og þykir koma til greina sem besti sjötti leikmaður tímabilsins.

Það fylgir því mikil áhætta að skrifa undir svona langa og stóra samninga við leikmenn og mál Westbrook verður eflaust notað sem víti til varnaðar um ókomna tíð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×