Körfubolti

Phoenix bauð Chris Paul fyrir Kyrie Irving

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phoenix var tilbúið að bjóða Chris Paul fyrir Kyrie Irving.
Phoenix var tilbúið að bjóða Chris Paul fyrir Kyrie Irving. getty/Kevin C. Cox

Phoenix Suns var meðal þeirra liða sem reyndu að fá Kyrie Irving og teygðu sig ansi langt til þess.

Svo virðist sem Brooklyn Nets sé búið að skipta Irving til Dallas Mavericks fyrir Spencer Dinwiddie, Dorian Finney-Smith og valrétti í nýliðavalinu.

Fleiri lið voru áhugasöm um Irving og meðal þeirra var Phoenix. Og samkvæmt Chris Haynes hjá TNT og Bleacher Report bauð Phoenix Chris Paul, Jae Crowder og valrétti í nýliðavalinu fyrir Irving. 

Brooklyn tók hins vegar tilboði Dallas. Þar hittir Irving fyrir stigahæsta mann NBA-deildarinnar, Luka Doncic. Slóveninn er með 33,4 stig að meðaltali í leik líkt og Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers.

Paul kom til Phoenix frá Oklahoma City Thunder. Á fyrsta tímabili sínu hjá Phoenix leiddi hann liðið í úrslit NBA þar sem það tapaði fyrir Milwaukee Bucks, 4-2. Paul, sem er 37 ára, hefur leikið í NBA síðan 2005 og er einn besti leikstjórnandi í sögu deildarinnar.

Irving er einn besti leikstjórnandi NBA þegar hann er ekki með vesen. Til marks um það er hann með 27,1 stig, 5,1 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur. Hann varð meistari með Cleveland Cavaliers 2016 og skoraði körfuna sem tryggði liðinu titilinn.

Dallas er í 6. sæti Vesturdeildarinnar, einu sæti neðar en Phoenix. Brooklyn er í 4. sæti Austurdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×