Körfubolti

Sló stjörnu Cleveland í punginn og allt varð vitlaust í NBA í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dillon Brooks og Donovan Mitchell slógust í NBA-deildinni í nótt.
Dillon Brooks og Donovan Mitchell slógust í NBA-deildinni í nótt. Getty/ Jason Miller

Donovan Mitchell og Dillon Brooks voru báðir sendir snemma í sturtu í NBA-deildinni í körfubolta í nótt eftir að deilur þeirra urðu upphafið að slagsmálum í leik Cleveland Cavaliers og Memphis Grizzlies. Það má sjá atvikið í fréttinni.

Brooks sló Mitchell í punginn eftir að hafa dottið í gólfið en Mitchell svaraði með því að kasta í hann boltanum og í framhaldinu brutust út slagsmál.

Donovan Mitchell fékk brottrekstrarvillu fyrir að kasta boltanum í Brooks en Brooks var rekinn út fyrir punghöggið.

Atvikið gerðist þegar 5:48 voru eftir af leiknum og Cavaliers liðið var 81-76 yfir. Cavaliers vann leikinn á endanum 128-113.

Mitchell er stjörnuleikmaður Cleveland en átti skelfilegan dag, skoraði aðeins 6 stig á 22 mínútum og klikkaði á 9 af 11 skotum sínum. Brooks var með 9 stig á 40 prósent skotnýtingu á sínum 22 mínútum.

Mitchell drullaði yfir Brooks eftir leikinn og kallaði hann óheiðarlegan leikmann.

„Svona er hann bara. Við höfum séð það margoft í þessari deild. Ég og hann höfum átt í persónulegu stríði í mörg ár,“ sagði Donovan Mitchell.

Það má sjá atvikið hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×