Innlent

45 töskur urðu eftir á flugvellinum á Tenerife

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Frá Ameríkuströndinni á Tenerife. Myndin er úr safni.
Frá Ameríkuströndinni á Tenerife. Myndin er úr safni. Vísir/Getty

45 töskur voru skildar á TFS flugvellinum á Tenerife þegar vél á vegum Niceair hélt til Akureyrar síðastliðinn miðvikudag.

Akureyri.net greinir frá þessu.

Fram kemur að íslensk flugfreyja hafi tilkynnt í kallkerfi vélarinnar rétt áður en hún lagði af stað frá Tenerife að vélin væri of þung og þess vegna myndi öll íslenska áhöfnin stíga frá borði og erlend áhöfn sjá um þjónustuna. Þegar vélin var lent á Akureyri var farþegum tilkynnt í tölvupósti að töskurnar hefðu orðið eftir á flugvellinum.

Í samtali við Vísi segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson upplýsingafulltrúi Niceair að um hafi verið að ræða mistök flugþjónustuaðila Niceair á Tenerife. Um er að ræða Iberia, ríkisflugfélag Spánar.

„Iberia semsagt skildi töskurnar eftir, tóku heilan vagn og hlóð þeim ekki um borð. Það uppgötvaðist ekki fyrr en við vorum farin af stað.“

Málið fékk þó farsælan endi og að sögn Þorvaldar komu töskurnar norður í gærdag. Hann segir atvik af þessu tagi fátíð.

„Þetta var svolítið sérstakt. Við höfum allavega aldrei lent í svona löguðu áður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×