Viðskipti innlent

Kofi Tómasar frænda kveður og Ægir tekur við

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ægir brugghús hefur opnað bar í húsnæðinu við Laugaveg 2 þar sem áður mátti finna skemmtistaðinn Kofann.
Ægir brugghús hefur opnað bar í húsnæðinu við Laugaveg 2 þar sem áður mátti finna skemmtistaðinn Kofann. Vísir/Bjarki

Ægir brugghús hefur opnað bar við Laugaveg 2. Áður var skemmtistaðurinn Kofinn, sem áður fyrr hét Kofi Tómasar frænda, rekinn í húsnæðinu. Framkvæmdastjórinn segir reksturinn hafa gengið mjög vel eftir opnunina. 

Um miðjan október á síðasta ári opnaði Ægir brugghús bar við Laugaveg 2. Að sögn Ólafs S. K. Þorvaldz, framkvæmdastjóra og bruggmeistara brugghússins, er staðurinn mun rólegri en forveri hans í húsnæðinu, Kofinn. Þar var ávallt dúndrandi tónlist og opið langt fram á nótt. 

Skemmtistaðurinn Kofinn var áður við Laugaveg 2.

„Þetta er meiri afslöppun og minna djamm. Við erum með opið til klukkan eitt um helgar og ellefu á virkum dögum. Róleg og notaleg tónlist, hægt að spjalla saman án þess að þurfa að öskra,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu. 

Ægir brugghús er einnig með stað úti á Granda á Eyjarslóð, Ægisgarð. Þar er veislusalur og hentar frekar fyrir hópa. Ólafur segir að nýi staðurinn sé betri upp á aðgengi fyrir almenning, þá sérstaklega erlenda ferðamenn sem vilja smakka bjóra Ægis. 

Ólafur K. S. Þorvaldz er framkvæmdastjóri og bruggmeistari Ægis Brugghúss.Vísir/Einar

„Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum um hvort það sé hægt að koma og smakka. Einstaklingar hafa verið að labba alla leið út á Eyjarslóðina til að koma og nálgast bjórinn okkar. Það var kominn tími til að vera með stað sem maður gæti sent fólk á og haft vöruna aðgengilegri,“ segir Ólafur. 

Túristarnir eru mikill meirihluti viðskiptavina nýja staðarins, þá sérstaklega á virkum dögum. Ólafur segir að áttatíu prósent viðskiptavina séu erlendir ferðamenn. 

„Staðsetningin er frábær upp á það að gera. Þetta eru örugglega fjölförnustu gatnamót Reykjavíkur. Það hefur verið vel tekið í þetta. Svo erum við komin í samstarf við Wake Up Reykjavík. Þau eru að koma með útlendinga til okkar í svona „food and drink tour“. Þetta er búið að ganga mjög vel eftir að við opnuðum,“ segir Ólafur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×