Austanstormur skekur landið á morgun með vindraða frá 15 upp í 30 metra á sekúndu. Appelsínugular viðvaranir taka gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi, Vestfjörðum og í Faxaflóa. Annars staðar á landinu eru viðvaranirnar gular, nema á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi. Viðvaranirnar gilda fram á þriðjudag.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna stöðunnar á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og á Suðurlandi. Búið er að boða til samráðsfundar Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra þar sem farið verður yfir stöðuna á morgun. Gangi spár eftir verður samhæfingarmiðstöð Almannavarna virkjuð. Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að lægðin sé ein af þessum „skeinuhættu vetrarlægðum“ sem komi hratt upp að landinu. Lægðin muni halda áfram að vaxa næsta sólarhringinn eða svo.
„Það er svo sem ekkert að veðri fyrst í fyrramálið – alveg hægt að komast á milli þá. En upp úr hádegi þá tekur að hvessa og svo versnar veðrið mjög hratt svona upp úr miðjum degi. Þetta er austanátt og það verður sérstaklega hvasst á Suðurlandi, í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllunum en dálítil óvissa með úrkomuna; hvort hún falli sem slydda eða snjókoma.“
Hann segir að búast megi við hríðarveðri austur yfir Hellisheiði og í Þrengslum í eftirmiðdaginn á morgun. Vegagerðin vekur athygli á viðvörunum á vefsíðu sinni þar sem fram kemur að gera megi ráð fyrir lokunum. Einar segir að beinast liggi við að gripið verði til aðgerða frá Hvolsvelli og austur í Vík. Þá megi gera ráð fyrir öflugum hviðum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.
„Þetta er svona hvellur sem gengur yfir og um kvöldmat þá verður veðrið að miklu leyti gengið niður – þó ekki alveg – vegna þess að vindáttin snýst og veðrið verður öðruvísi annað kvöld,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Vegagerðinni.