Ásmundur Einar Daðason ræddi uppbyggingu þjóðarhallar á Sprengisandi í dag. Hann segir ljóst að lítill tími sé til stefnu en telur tvö ár raunhæft markmið.
„Tímalínan er djörf og ég hef sagt það að það þarf allt að ganga upp til þess að hún gangi upp. Það væri samt sérstakt ef að stjórnmálamaður sem væri að vinna að tillögum í samstarfi við íþróttir sem eru keppnisgrein setti ekki upp djarfar tímalínur. Hingað til erum við að halda tímaáætlun en það þarf allt að ganga upp. Heimurinn hrynur ekki fyrir mig sem stjórnmálamann þótt það dragist í hálft eða eitt ár, en við viljum setja okkur metnaðarfull markmið fyrir íþróttirnar.“
Þegar umræða um byggingu þjóðarhallar hófst, og viljayfirlýsing síðar undirrituð, sagði borgarstjóri að Reykjavíkurborg hafi sett svolítið fé til hliðar sem nýta mætti til verkefnisins. Tala sem nefnd hefur verið eru tveir milljarðar. Að lokinni frumathugun liggur þó fyrir að kostnaðarskiptingin verði nokkuð ójöfn, leggi borgin ekki meira til, en eins og fyrr segir er gert ráð fyrir því að uppbyggingin muni kosta fimmtán milljarða.
Forsætisráðherra og borgarstjóri sögðu fyrr í janúarmánuði að þau væru bjartsýn um að samningar um kostnaðarskiptingu næðust í febrúar. Ásmundur Einar segir vel hafa gengið.
„Nú erum við að forma það betur, það er samtal í gangi núna milli ríkis og borgar um kostnaðarskiptinguna á þessu. Þar er búið frá síðasta fundi að halda þrjá til fjóra fundi þar sem gengur mjög vel að ræða það hvernig aðkoma beggja aðila verður að þessu.“