Sænsku fjölmiðlarnir sögðu frá ævintýrum starfsmanns sænska liðsins í miðjum leik á móti Íslandi sem Svíar unnu á endanum með fimm marka mun.
Ástæðan var að íslensku strákarnir rifu tvær sænskar keppnistreyjur á fyrstu mínútum leiksins.
Fyrst rifnaði treyja Albin Lagergren eftir aðeins tveggja mínútna leik og skömmu síðar rifnaði líka treyja hornamannsins Lucas Pella.
Hade fel i går här i svar på någon tweet. Går en spelares båda tröjor sönder är det färdigspelat i matchen. Man får inte ta någon annans nummer. Så materialförvaltare Åhman fick göra en utryckning i går under första halvlek.https://t.co/Iab3vSmttU
— Johan Flinck (@JohanFlinck) January 21, 2023
Báðir leikmennirnir skiptu um treyju og klæddu sig í varatreyjuna því þeir máttu ekki halda áfram leik með rifna treyju.
„Ef báðar treyjur leikmanns eru rifnar þá má hann ekki koma aftur inn á í leiknum,“ sagði búningastjórinn Christian Åhman í viðtali við Aftonbladet.
„Þeir mættu ekki spila. Ef slíkt kemur fyrir í sænsku deildinni, þá geta menn fundið treyju með öðru númeri og látið ritarann vita. Aftur á móti þegar þú ert skráður til leiks á heimsmeistaramótinu með ákveðið númer þá verður þú að vera í því númeri allt mótið,“ sagði hinn 54 ára gamli Åhman.
„Þegar tvær treyjur höfðu rifnað eftir sjö mínútur þá vissum við ekki hvernig þetta myndi enda. Ég hljóp því á hótelið og tók allar gulu treyjurnar sem ég fann og hljóp til baka,“ sagði Åhman.
Það kom sér vel fyrir sænska landsliðið að það var stutt á hótelið því það er aðeins í sjö mínútna fjarlægð frá Scandinavium höllinni. Á meðan reyndu markvörðurinn Mikael Appelgren og sjúkraþjálfarinn Johanna Seve að líma saman treyju Pella.
„Þeir snéru henni við og teipuðu hana saman. Það tókst að líma hana saman og hann hefði getað notað hana ef hin hefði rifnað líka,“ sagði Åhman.
Varatreyjan hélt og Lucas Pella var markahæstur í sænska liðnu með átta mörk.