Bræðurnir voru handteknir skömmu fyrir áramót og sakaðir um að hafa stofnað hóp sem stundaði skipulagða glæpastarfsemi sem fólst í því að þvinga konur til framleiðslu klámefnis sem dreifa hafi átt á sérstökum áskriftarsíðum á netinu.
Lögreglan segir bræðurna grunaða um að hafa tælt konur til Rúmeníu þar sem þeim hafi svo verið haldið gegn vilja þeirra. Þeim hafi verið nauðgað og þær þvingaðar með ofbeldi til að framleiða klám.
Tveir aðrir voru einnig handteknir. Bræðurnir segjast saklausir.
Sjá einnig: Segir stúlkurnar hafa viljað verða eiginkonur Andrew Tate
Tate, sem er fyrrverandi bardagakappi og lagði stund á blandaðar bardagalistir, á sér mikinn fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlum. Tate hefur helst verið umdeildur fyrir orðræðu hans í garð kvenna og að ýta undir eitraða karlmennsku. Mikill meirihluti fylgjenda hans á samfélagsmiðlum eru ungir karlmenn og drengir.
Bræðurnir fluttu til Rúmeníu fyrir fimm árum síðan
Lögreglan hefur lagt hald á mikið af eignum þeirra bræðra eða minnst fimmtán bíla og tíu fasteignir.
Sjá einnig: Lúxuskerrur Tate gerðar upptækar
Ekki hefur verið gefið út á grunni hvers gæsluvarðhald þeirra var framlengt en til stendur að gera það seinna í dag. Lögmenn bræðranna höfðu í aðdraganda málaferlanna í morgun sagt að saksóknarar hefðu ekki lagt fram nein ný sönnunargögn og sögðust bjartsýnir á að ekki yrði framlengt.