Fótbolti

Dani Alves hand­tekinn fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dani Alves í leik með mexíkóska liðinu Pumas.
Dani Alves í leik með mexíkóska liðinu Pumas. getty/Hector Vivas

Dani Alves, sigursælasti fótboltamaður sögunnar, var handtekinn í morgun, sakaður um að hafa áreitt konu kynferðislega á klósetti á skemmtistað í Barcelona.

Þrítug kona sakaði Alves um að hafa áreitt sig í síðasta mánuði. Samkvæmt frásögn konunnar á Alves að hafa farið með hendur sínar inn undir nærföt hennar. Hún sagði vinum sínum frá atvikinu sem létu öryggisverði vita og í kjölfarið var lögreglan kölluð til. Þegar lögreglan kom á næturklúbbinn til að yfirheyra konuna hafði Alves þegar yfirgefið svæðið.

Lögreglan hefur verið með málið til rannsóknar undanfarna daga og handtók Alves svo í morgun.

Í viðtali við spænska sjónvarpsstöð lýsti Alves yfir sakleysi sínu. Hann sagðist vissulega hafa verið á skemmtistaðnum þetta kvöld en hann sagðist ekkert kannast við konuna og aldrei hafa hitt hana.

Alves, sem verður fertugur á árinu, leikur núna með Pumas í Mexíkó. Enginn leikmaður í fótboltasögunni hefur unnið fleiri titla en hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×