„Ég ætla að fá varaþingmann núna í þrjá mánuði til að byrja með. Svo mun ég hafa seturétt á þinginu í vor þegar það eru þinglok,“ segir Kristrún sem á von á annarri stúlku.
„Ég ætla að reyna að ná sex mánuðum með henni.“
Kristrún segir að það sé best að vera með eðlilegar væntingar til þess.
„Þú ert ekkert látin alveg í friði þegar þú ert í svona stöðu þannig að ég ætla að reyna að vera eins „Zen“ og ég get.“
Langaði ekki að verða bankastjóri
Sindri Sindrason hitti Kristrúnu á heimili hennar og eiginmannsins í Háaleitinu í Reykjavík og fékk að kynnast hinni hliðinni á henni. Hann spurði meðal annars út í æskuna, námsferilinn, framtíðarplönin, hjónabandið og af hverju hún endaði í stjórnmálum.
„Það héldu allir að ég yrði læknir,“ segir Kristrún sem valdi að verða hagfræðingur. Móðir hennar var læknir og starfaði meðal annars í tvo áratugi á bráðamóttökunni. Eftir nám og starf erlendis byrjaði hún að vinna hjá Kviku banka hér á landi.
„Ég ætlaði mér aldrei að verða bankastjóri eða neitt svoleiðis. Ég var hagfræðingur í grunninn og er það og hef alltaf haft áhuga á þjóðfélagsmálum og fannst félagslega hliðin á hagfræðinni alltaf mjög skemmtileg.“
Hún hafði ekki endilega hugsað sér að fara út í pólitík.
„Ég áttaði mig ekki á því, fyrr en ég var hvött til að fara í framboð, að þetta væri mögulega vettvangur fyrir mig. Ég fór inn í þetta mjög fókuseruð á verkefnið. Ég vildi sjá ákveðna mynd í efnahagsmálum og velferðarmálum. Ég var ekkert endilega að hugsa um einhvern persónulegan pólitískan feril. “
Ísland í dag innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.