Körfubolti

Kári: „Fannst við ekkert spila frábærlega en við gerðum nóg“

Siggeir Ævarsson skrifar
Kári sækir hér gegn Hlyn Bæringssyni í leiknum í dag.
Kári sækir hér gegn Hlyn Bæringssyni í leiknum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Kári Jónsson fyrirliði Vals fór fyrir sínum mönnum í dag þegar Valsmenn unnu sinn fyrsta bikarmeistaratitil í 32 ár. Kári var valinn maður leiksins, en hann var stigahæstur á vellinum með 22 stig, og bætti við 7 stoðsendingum og 4 fráköstum.

 Aðspurður sagði hann að honum hefði þó aldrei liðið neitt sérstaklega vel á vellinum í dag.

„Eiginlega aldrei vel! Þetta var djöfulsins harka allan tímann og þeir gefast aldrei upp. En við sýndum það að við erum með stórt liðshjarta og vildum þetta ógeðslega mikið og unnum að lokum.“

Kári meiddist undir lok fyrri hálfleiks og var tvísýnt hvort hann gæti yfirhöfuð haldið áfram. Kári sagðist í raun ekki hafa hugmynd um hvort meiðslin væru alvarleg, hann hefði ekki haft neinn tíma til að vera meiddur.

„Ég veit það ekki, við sjáum til á morgun. Þetta var vont núna en ég hafði ekki tíma í það, bara áfram gakk!“

Kári fór meiddur af velli í fyrri hálfleik sneri aftur eftir hlé.Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn eru með breiðan hóp og Kári sagði að allir sigrar hjá þeim þetta tímabilið væru liðssigrar, þar sem allir væru að berjast fyrir hvern annan.

„Það eru allir sigrar hjá okkur þannig núna, þetta er allt orðið svona. Við gerum þetta saman, elskum að berjast fyrir hvern annan. Þannig fáum við orkuna, fáum gleðina. Þannig finnst okkur þetta skemmtilegast.“

Stjörnumenn eru með nokkuð afgerandi leikmenn í miðherjastöðunni, en þeir höfðu ekki mikil áhrif á leikinn í dag, eða hvað?

„Jú það hafði eiginlega fullt af áhrifum. Þeir voru að taka helling af fráköstum og það mjög erfitt að vera að taka á þeim allt í teignum. En bara fullt kredit á þá, þeir gerðu mjög vel og flott „game plan“ hjá þeim eiginlega allan leikinn. „Respect“ á þá.“

Létu Valsmenn þetta kannski bara líta út fyrir að vera auðveld barátta í teignum?

„Ég veit það ekki,“ – sagði Kári og hló. „Ég verð eiginlega að sjá þetta aftur. Mér fannst við ekkert spila frábærlega en við gerðum nóg.“

Já Valsmenn gerðu sannarlega nóg í þessum jafna og spennandi leik, og uppskáru sigur að lokum og bikarmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×