Menning

Stöðva þurfti frum­sýningu á Macbeth

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Ekki er víst hvort bilunin var af eðlilegum orsökum eða hvort sambland af alræmdum leikhúsálögum Macbeth.
Ekki er víst hvort bilunin var af eðlilegum orsökum eða hvort sambland af alræmdum leikhúsálögum Macbeth. Borgarleikhúsið

Segja má að Borgarleikhúsið hafi storkað örlögunum með að ákveða að frumsýna skoska kónginn Macbeth á sjálfan föstudaginn þrettánda en það gerðist í gærkvöldi. Þegar um klukkustund var liðinn af sýningunni byrjuðu einkennilegir hlutir að gerast.

Í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu kemur fram að ljós í sal hafi kviknað og slokknað aftur á örskotsstundu nokkrum sinnum í röð. Ljós á sviðinu byrjuðu svo eitt af öðru að blikka undarlega. Leikararnir héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist og voru nú áhorfendur ekki vissir um hvort myrkrið og blikkið væru hluti af sýningunni. 

Eftir skamma stund kom sýningarstjóri fram á svið og tjáði áhorfendum að um tæknibilun væri að ræða og stöðva þyrfti sýninguna. Gestir biðu þá í forsal leikhússins á meðan bilanagreining og viðgerð fór fram. Sögðu tæknimenn hússins að slík bilun hefði aldrei átt sér stað áður og væri afar einkennileg. 

En hægt var að kippa tækninni í lið og halda áfram með sýninguna sem endaði með standandi lófaklappi og fagnaðarlátum. 

Ekki er víst hvort bilunin var af eðlilegum orsökum eða hvort sambland af leikhúsálögum Macbeth, sem ekki má nefna í leikhúsi samkvæmt gamalli hefð, og föstudeginum þrettánda hafi einfaldlega verið of mikið fyrir örlaganornirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×