Erlent

Á­kæra gefin út vegna morðsins á Shinzo Abe

Atli Ísleifsson skrifar
Tetsuya Yamagami hefur viðurkennt að hafa skotið Abe með heimagerðu skotvopni.
Tetsuya Yamagami hefur viðurkennt að hafa skotið Abe með heimagerðu skotvopni. EPA

Embætti ríkissaksóknara í Japan hafa gefið út ákæru á hendur 41 árs manni vegna morðsins á Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra landsins.

AP segir frá því að maður að nafni Tetsuya Yamagami hafi verið ákærður, en hann var handtekinn skömmu eftir að hafa skotið Abe á kosningafundi í borginni Nara þann 8. júlí síðastliðnum.

Hinn 67 ára Abe var skotinn í tvígang þar sem hann flutti ræðu til stuðnings frambjóðanda og lést hann af sárum sínum á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Yamagami hefur viðurkennt að hafa skotið Abe með heimagerðu skotvopni. Við yfirheyrslu sagðist hann hafa ráðist gegn Abe vegna tengsla forsætisráðherrans við Sameiningarkirkjuna í Japan sem Yamagami sjálfur fyrirleit.

Síðustu mánuði hefur Yamagami gengist undir umfangsmiklar geðrannsóknir og var niðurstaðan sú að hann sé metinn sakhæfur.

Shinzo Abe var forsætisráðherra Japan í eitt ár frá 2006 til 2007 og svo aftur í átta ár frá 2012 til 2020. Hann sagði af sér 2020 vegna sáraristilbólgu sem hann þjáðist af, en hann er sá forsætisráðherra Japans sem hefur gegnt embætti lengst.


Tengdar fréttir

Mót­mæli við opin­bera út­för Shinzo Abe

Opinber útför Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japans, fer fram í höfuðborginni Tókýó í dag. Þúsundir hafa safnast sérstaklega saman til að mótmæla því að verið sé að nýta almannafé til útfararinnar og segja það geta nýst betur í önnur verkefni, en opinberar útfarir í japan eru vanalega einungis haldnar þegar meðlimir japönsku keisarafjölskyldunnar falla frá.

Taldi að Abe tengdist trúar­hópi sem keyrði móður hans í gjald­þrot

Maðurinn sem skaut fyrrverandi forsætisráðherra Japans til bana á aðfaranótt föstudags er sagður hafa sagt lögreglu að hann hefði skipulagt árásina í marga mánuði vegna þess að hann teldi að forsætisráðherran tengdist trúarhópi, sem hann segir hafa keyrt móður hans í gjaldþrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×