Erlent

Óheppilegt myndband virðist vera að leiða til afsagnar ráðherrans

Snorri Másson skrifar

Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur ekki átt sjö dagana sæla frá því að hún birti það sem verður að heita óheppileg áramótakveðja til Þjóðverja á gamlársdag. Sumir hafa gengið svo langt að óska eftir afsögn hennar og nú herma þýskir miðlar að af henni verði. Lambrecht sé á leið úr þýsku stjórninni.

Þegar fjallað var um myndband Lambrecht í Íslandi í dag í vikunni hafði enn ekki verið greint frá yfirvofandi afsögn hennar. Nú segir Süddeutsche Zeitung að Lambrecht sé á útleið – og það ekki aðeins vegna myndbandsins, heldur einnig vegna lakrar frammistöðu. Myndbandið má sjá í innslaginu hér að ofan á fyrstu mínútu.

Lambrecht óskaði stuðningsmönnum sínum og Þjóðverjum öllum gleðilegs nýs árs í myndbandsávarpi á Instagram undir flugeldagný. Það sem helst þykir misheppnað í myndbandinu er að á sama tíma og heyra má sakleysislegar flugeldasprengjur dynja í bakgrunninum, vísar Lambrecht til stríðsins í Úkraínu, þar sem sambærileg hljóð eru auðvitað spurning um líf og dauða. 

Christine Lambrecht er þrautreyndur stjórnmálamaður úr flokki þýskra Sósíaldemókrata og hefur verið varnarmálaráðherra í samsteypustjórn Olaf Scholz frá því að hún var mynduð árið 2021.Instagram

Um leið beinist gagnrýnin að inntaki ávarpsins: „Þvílíkt ár, árið 2022,“ segir ráðherrann, „það hefur fært okkur ótrúlegar áskoranir. Í miðri Evrópu geisar styrjöld. Í tengslum við styrjöldina varð ég fyrir margvíslegum hughrifum, ég fékk að hitta alls konar áhugavert og flott fólk og fyrir það er ég hjartanlega þakklát.“

Að vekja helst athygli á þeim persónulegu kynnum sem hún hafi haft af áhugaverðum persónum í tengslum við styrjöldina hefur verið sagt ósmekklegt af hálfu ráðherrans - og að það geri lítið úr alvöru málsins.


Tengdar fréttir

„Það er svo auðvelt að vera aumingi í dag“

Að hætta í nikótínpúðum, borða meira, fara í nokkra göngutúra - og ekki vera aumingi; þetta er á meðal þess sem Guðmundur Emil Jóhannsson einkaþjálfari, betur þekktur sem Gummi Emil, leggur til að fólk tileinki sér á nýju líkamsræktarári. Hann hefur áhyggjur af heilsu fólks sem hangir á samfélagsmiðlum daginn inn og út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×