Þegar fjallað var um myndband Lambrecht í Íslandi í dag í vikunni hafði enn ekki verið greint frá yfirvofandi afsögn hennar. Nú segir Süddeutsche Zeitung að Lambrecht sé á útleið – og það ekki aðeins vegna myndbandsins, heldur einnig vegna lakrar frammistöðu. Myndbandið má sjá í innslaginu hér að ofan á fyrstu mínútu.
Lambrecht óskaði stuðningsmönnum sínum og Þjóðverjum öllum gleðilegs nýs árs í myndbandsávarpi á Instagram undir flugeldagný. Það sem helst þykir misheppnað í myndbandinu er að á sama tíma og heyra má sakleysislegar flugeldasprengjur dynja í bakgrunninum, vísar Lambrecht til stríðsins í Úkraínu, þar sem sambærileg hljóð eru auðvitað spurning um líf og dauða.

Um leið beinist gagnrýnin að inntaki ávarpsins: „Þvílíkt ár, árið 2022,“ segir ráðherrann, „það hefur fært okkur ótrúlegar áskoranir. Í miðri Evrópu geisar styrjöld. Í tengslum við styrjöldina varð ég fyrir margvíslegum hughrifum, ég fékk að hitta alls konar áhugavert og flott fólk og fyrir það er ég hjartanlega þakklát.“
Að vekja helst athygli á þeim persónulegu kynnum sem hún hafi haft af áhugaverðum persónum í tengslum við styrjöldina hefur verið sagt ósmekklegt af hálfu ráðherrans - og að það geri lítið úr alvöru málsins.