Körfubolti

Hittu úr öllum fjörutíu vítunum sínum í sama leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jimmy Butler setti öll 23 vítaskot sín niður í sigri Miami Heat á Oklahoma City Thunder.
Jimmy Butler setti öll 23 vítaskot sín niður í sigri Miami Heat á Oklahoma City Thunder. getty/Megan Briggs

Miami Heat setti met þegar leikmenn liðsins hittu úr öllum fjörutíu vítaskotum þess í leik gegn Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Það var líka eins gott að öll vítin rötuðu rétta leið því Miami vann leikinn með minnsta mun, 112-111.

Miami sló þar með fjörutíu ára met en leikmenn Utah Jazz hittu úr öllum 39 vítaskotum sínum í leik gegn Portland Trail Blazers 7. desember 1982.

Það var vel við hæfi að Jimmy Butler hafi tryggt Miami sigurinn í leiknum í nótt þegar hann setti niður víti er 12,2 sekúndur voru eftir. Butler tók alls 23 víti í leiknum og var með hundrað prósent nýtingu.

Gabe Vincent hitti úr sex vítum, Jamal Cain fimm og þeir Max Strus, Dewayne Dedmon og Victor Oladipo tveimur hver.

Butler skoraði 35 stig í leiknum og Strus 22. Miami er í 8. sæti Austurdeildarinnar með 22 sigra og tuttugu töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×