Erlent

Kardinálinn George Pell er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn ástralski George Pell var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn börnum en síðar sýknaður.
Hinn ástralski George Pell var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn börnum en síðar sýknaður. EPA

Hinn umdeildi ástralski kardináli, George Pell, lést í Rómarborg á Ítalíu í gærkvöldi, 81 árs að aldri. Hann var á sínum tíma sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn börnum en síðar sýknaður.

Mál Pell skók bæði kaþólsku kirkjuna og Ástralíu. Hann hafði áður gegnt embætti fjármálaráðherra Páfagarðs og var um tíma einn nánasti efnahagslegi ráðgjafi Frans páfa. Þá var hann háttsettasti maður innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu.

Dómstóll í Ástralíu dæmdi árið 2019 Pell í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur drengjum. Hæstiréttur landsins sýknaði Pell í málinu ári síðar og var honum þá sleppt úr fangelsi. 

Talsmenn kaþólsku kirkjunnar segja að hann hafi látist af völdum hjartaveikinda í kjölfar mjaðmaaðgerðar sem hann hafði gengist undir.

Pell kardináli hafði gegnt stöðu erkibiskups í bæði Melbourne og Sydney áður en hann varð einn af nánustu samstarfsmönnum páfa í Páfagarði. Hann var fenginn til Páfagarðs árið 2014 til að taka til í fjármálum Páfagarðs og var af mörgum lýst sem þriðja háttsettasta manninum innan kaþólsku kirkjunnar á þeim tíma.

Hann lét af störfum árið 2017 og sneri þá aftur til Ástralíu eftir að hafa verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur drengjum á þeim tíma er hann gegndi stöðu erkibiskups í Melbourne á tíunda áratugnum.

Pell hélt ávallt fram sakleysi sínu í málinu og sat inni í þrettán mánuði áður en honum var sleppt þegar Hæstiréttur Ástralíu sneri við dómnum.

Sérstök rannsóknarnefnd komst að því árið 2020 að Pell hafi vitað um kynferðisbrot presta gegn börnum á áttunda áratugnum en ekki gripið til aðgerða vegna þeirra.

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, segir ljóst að andlát Pell sé mörgum mikið áfall. 

Þá segir Tony Abbott, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, að Pell hafi verið „dýrðlingur okkar tíma“, veitt mönnum mikinn innblástur og að hann hafi þurft að sæta „nútímakrossfestingu“. Abbott er sjálfur kaþólskur. 


Tengdar fréttir

Kerfisbundið barnaníð í Ástralíu

Skýrsla upp úr fimm ára rannsókn ástralskrar rannsóknarnefndar birtist í gær. Hún sýnir fram á að alvarlegum brotum hafi verið leyft að viðgangast innan helstu samfélagsstofnana Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×