Fótbolti

Úlfarnir krefjast svara um af hverju markið gegn Liverpool fékk ekki að standa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Toti Gomes fagnaði eins og óður maður þegar boltinn söng í netinu, enda hélt hann að hann væri að slá Liverpool úr leik í FA-bikarnum.
Toti Gomes fagnaði eins og óður maður þegar boltinn söng í netinu, enda hélt hann að hann væri að slá Liverpool úr leik í FA-bikarnum. Jack Thomas - WWFC/Wolves via Getty Images

Julen Lopetegui, knattspyrnustjóri Wolves, segir að félagið hafi sent enska knattspyrnusambandinu, FA, bréf þar sem sambandið er beðið um að útskýra af hverju þriðja mark liðsins gegn Liverpool í FA-bikarnum um liðna helgi fékk ekki að standa.

Toti Gomes hélt að hann hefði tryggt Úlfunum sigurinn gegn Liverpool þegar hann taldi sig hafa breytt stöðunni í 3-2 seint í leiknum. Hann skoraði þá í kjölfarið á hornspyrnu frá Matheus Nunes.

Línuvörður leiksins hafði hins vegar lyft flagginu og dæmt Nunes rangstæðan þegar hann fékk boltann aftur eftir að hornspyrnan var tekin. Margir bjuggust við því að myndbandsdómgæslan myndi snúa dómi línuvarðarins við, en eitthvað hafði klikkað við uppsetningu búnaðarins og því var engin myndavél sem sá Nunes þegar boltanum var leikið aftur til hans.

Myndbandsdómgæslan gat því ekki fært nein sönnunargögn fyrir því að Nunes hafi verið réttstæður og því stóð ákvörðun línuvarðarins.

„Það er augljóst að eitthvað hefur komið fyrir,“ sagði Lopetegui.

„Ég hef auðvitað séð myndirnar á netinu. Ég hef mína skoðun á þessu máli og við höfum sent bréf og bíðum nú eftir útskýringu.“

Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli og því þurfa liðin að mætast á nýjan leik til að skera úr um hvort þeirra kemst í fjórðu umferð FA-bikarsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×