Hinn 36 ára gamli Tate var handtekinn ásamt bróður sínum Tristan og tveimur rúmenskum konum þann 30. desember síðastliðinn. Eru þau grunuð um mansal, nauðgun og þátttöku í myndun skipulagðs glæpahrings. Báðir neita þeir Tate-bræður sök og héldu uppi vörnum fyrir dómara í dag. Farið er fram á upptöku ýmissa eigna en rúmenska lögreglan hefur þegar lagt hald á tíu fasteignir og fimmtán lúxusbifreiðar.
Andrew Tate, sem er bæði breskur og bandarískur ríkisborgari, var á síðasta ári bannaður á helstu samfélagsmiðlum vegna kvenhaturs. Hann hefur meðal annars sagt að konur beri að hluta til ábyrgð á því að vera nauðgað og að þær tilheyri karlmönnum.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Rúmeníu, sem gefin var út þegar þeir bræður voru handteknir, segir að fjórmenningarnir séu grunaðir um að hafa stofnað hóp sem hafi stundað það að þvinga konur til framleiðslu klámefnis sem dreifa hafi átt á sérstökum áskriftarsíðum á netinu.
Lögreglan segir að krafan um upptöku eigna sé gerð til að tryggja bætur til handa brotaþolum og styrkja rannsóknina, eins og það er orðað í grein Guardian um málið.