Mikið hefur verið fjallað um bókina síðustu viku, bæði vegna viðtala við Harry beggja vegna Atlantshafsins og vegna þess að bókin var sett of snemma í sölu á Spáni.
Bókin, sem ber heitið Spare, er nú þegar sú mest selda á Amazon á Bretlandseyjum. Unnendur hljóðbóka munu geta tryggt sér eintak, lesið af prinsinum sjálfum.
Eins og þekkt er orðið fjallar Harry ítarlega um átök sín við konungsfjölskylduna í bókinni og veigrar fáum; Vilhjálmur bróðir hans, mágkona hans Katrín og Camilla stjúpmóðir hans eru meðal þeirra sem fá miður góða umsögn.
Þá opnar hann sig um andlát móður sinnar, Díönu prinsessu, og hvernig hann trúði því ekki í langan tíma að hún væri raunverulega dáin.
Fyrsta skiptið, eiturlyfjaneysla og herþjónusta Harry í Afganistan eru einnig meðal umfjöllunarefna en ekki síst ósættið við aðra meðlimi konungsfjölskyldunnar eftir að hann hóf samband sitt við núverandi eiginkonu sína, Meghan Markle.
Konungsfjölskyldan hefur löngum verið þekkt fyrir að tjá sig ekki opinberlega um mál fjölskyldunnar en Harry segir um að ræða misskilning. Raunar hafi heilu fréttirnar verið skrifaðar af Buckingham-höll, byggðar á stöðugum lekum frá fjölskyldumeðlimum og starfsmönnum þeirra.
Hann segir bókina leið til að koma sinni sögu á framfæri í eitt skipti fyrir öll. Hann útiloki ekki sættir en áður verði að koma til uppgjörs.