Innlent

Sýknaður af líkamsárás á sambýliskonu sína

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Héraðsdómur Vesturlands er í Borgarnesi.
Héraðsdómur Vesturlands er í Borgarnesi. Vísir/EGill

Héraðsdómur Vesturlands hefur sýknað karlmann sem ákærður var fyrir að ráðast á þáverandi sambýliskonu sína. Framburður fórnarlambsins hjá lögreglu og fyrir dómi þótti óstöðugur en konan gaf þrjár mismunandi lýsingar af atvikum.

Manninum var gefið að sök að hafa kvöld eitt árið 2021, slegið konuna í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægri vanga og við hægra auga.

Fram kemur í dómnum að nágranni parsins hafi haft samband við lögreglu umrætt kvöld vegna gruns um hugsanlegt heimilisofbeldi. Lýst hafi verið gráti, rifrildi fullorðinna og barnsgráti. Lögregla fór á vettvang og opnaði maðurinn fyrir þeim en vildi ekki hleypa lögreglu inn í íbúðina. Á staðnum varð lögregla vör við að konan var að kalla innan úr svefnherberginu og fóru lögreglumenn þá inn í íbúðina og ræddu við hana og hinn ákærða.

Annar lögreglumannanna sagði í skýrslu fyrir dómi að konan hefði verið grátandi og í miklu uppnámi. Sagði hún manninn hafa slegið sig. Kvaðst lögreglumaðurinn tekið eftir roða við auga konnunnar,en teknar hefðu verið myndir af henni.

Engin vitni til staðar

Maðurinn neitaði eindregið sök í málinu en viðurkenndi að rifrildi hefði átt sér stað á milli hans og konunnar þessa nótt.

Fram kemur í dómnum að nokkurs ósamræmis gæti í framburði konunnar . Við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu  sagði hún manninn hafa slegið sig í andlitið með opinni vinstri hendi. Í næstu skýrslutöku lýsti hún því að maðurinn hefði slegið hana einu sinni með opnum lófa. 

Í skýrslum fyrir dómi kvaðst hún fyrst ekki vita hvernig hann veitti henni áverkana umrætt sinn en svo undir lok skýrslutöku sagði hún að maðurinn hefði slegið hana einu sinni en hún „muni það ekki betur en þetta.“

Í niðurstöðu dómsins segir að „ekki sé loku fyrir það skotið að misræmi í framburði brotaþola geti stafað af óvandaðri túlkun líkt og brotaþoli nefndi fyrir dómi. Ákærði verður hins vegar ekki látinn bera hallann af því.“

Þá kemur fram að engin vitni voru að atburðum umrædda nótt og því er einungis til að dreifa framburði konunnar og skýrslum af þeim er að komu. Framburður konunnar getur hins vegar ekki talist annað en óstöðugur að mati dómsins.

Þá eru einnig óljós atriði varðandimeinta áverka eða meiðsl brotaþola en þau voru ekki staðfest með læknisvottorði. Í skýrslu af rannsóknarlögreglumanni sem ræddi við konuna á vettvangi kom til að mynda ekkert fram um mar á hægri vanga eins og lýst er í ákæru málsins. Þá er ekki lýst áverka á hægri vanga á ljósmynd sem liggur fyrir í málinu af enda slíkur ekki sjáanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×