Innlent

ÍBV biðst vel­virðingar á nafn­bót þrettánda­skessu í Eyjum

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV biðst afsökunar á nafnbót skessunnar.
Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV biðst afsökunar á nafnbót skessunnar. Vísir

Haraldur Pálsson, framkvæmdarstjóri ÍBV segir þá staðreynd að nafn Eddu Falak hafi verið sett á tröllskessuna á þrettándagleði í Vestmannaeyjum ekki vera „eins djúpt og fólk heldur.“ Félagið biðjist velvirðingar á þessu og þyki leiðinlegt að skessan særi blygðunarkennd einhverra. Bæjarstjóri segir atburðinn óviðeigandi. 

Aðspurður hvað hann hafi að segja um umfjöllun Mannlífs um þrettándagleðina þar sem henni er slegið upp sem „rasískri og andfemíniskri“ segir Haraldur svo ekki vera.

„Það eru tvö svona risastór tröll og það er hópur af unglingskrökkum sem eru með þessi tröll. Annað tröllið hefur alltaf verið Heimir Hallgríms og hann er í svona múslímskri múnderingu af því hann var þjálfari Al Arabi í Katar. Hitt tröllið hefur verið merkt Páley Borgþórsdóttur lögreglustjóra í mörg ár og ég fattaði ekkert endilega grínið í því. Svo bara var ekkert búið að merkja það tröll kvöldið fyrir og þegar þeir mæta þarna var búið að setja þessa merkingu á tröllið,“ segir Haraldur.

Edda Falak brást við atvikinu á Twitter rétt fyrir hádegi í dag og segir hún heilt íþróttafélag og bæjarfélag með þessu vera að hvetja til ofbeldis. 

„Ég hef greinilega nóg að gera á þessu ári,“ bætir Edda við. 

Veit í raun ekki hver tilgangurinn er

Haraldur segir að félaginu þyki leiðinlegt ef að málið særi blygðunarkennd einhverra, þetta hafi verið grín hjá unglingahópum.

„Við þurfum greinilega að miðstýra þessu eitthvað meira, það er leiðinlegt að þetta sé eitthvað umfjöllunarefni í sjálfu sér. Þetta eru engin skilaboð frá ÍBV eða neitt, við erum ekki að reyna að vera í stríði við einn né neinn. Þetta því miður fór fram hjá okkur,“ segir Haraldur.

Þegar því er velt upp hver tilgangurinn sé með því að setja nafn á skessuna segist Haraldur í raun ekki vita það.

„Þetta hefur bara verið einhver húmor hjá þessum hópum og hefur aldrei verið vandamál eins og með Páley,“ segir Haraldur og bætir því við að fjölmiðlar hafi ekki fjallað um það þegar nafn Páleyjar hafi verið sett á skessuna.

Hér má sjá skessuna þegar hún bar nafn Páleyjar Borgþórssdóttur. Á skessunni sést lögreglubúningur. Aðsent

Þegar fréttamaður segir innihald myndbandsins sem Mannlíf birti líta ansi óheppilega út segir Haraldur að málið sé ekki eins djúpt og fólk haldi, það sé ekkert „plott í þessu.“ Hann segir nafnið sem sett sé á skessuna vera málað á „pjötlu“ sem sé sett á.

„Þetta er ekki einu sinni skrifað á sjálft tröllið. Eins og þú sérð náttúrulega, Heimis grínið það var flott fyrir þremur árum þegar það var ekki Covid, þá var hann búinn að taka við þessu starfi þarna úti og þá var breytt í þessa múnderingu. Svo er misjafnt hvað þessir hópar hafa mikinn tíma til þess að breyta þeim og uppfæra þau,“ segir Haraldur og bendir á að skessunni sem hafi borið nafn Páleyjar áður hafi ekki verið breytt fyrir utan þennan efnisbút með nýju nafni.

Hér má sjá ,,Heimi" í allri sinni dýrð en brúðan er klædd búning Al Alrabi, liðsins sem hann þjálfaði í Katar. Aðsent

Nauðsynlegt að skoða málið frekar

Þannig að félaginu finnst ekkert athugavert að þetta sé yfirhöfuð gert, að einhver sé tekinn svona fyrir?

„Jú, jú, auðvitað þurfum við að setjast yfir það og reyna að gera betur í þeim efnum. Auðvitað langar okkur ekkert að vera með einhverja svona pillu frá okkur því að við erum auðvitað ekkert að ákveða þetta en við þurfum auðvitað bara að skoða þessi mál. En eins og ég sagði áðan, við sáum þetta ekki kvöldið fyrir,“ segir Haraldur.

Aðspurður hvort ákvörðunin hafi verið tekin af unglingum í bænum játar Haraldur því en bendir þó í kjölfarið á það að fullorðnir einstaklingar séu einnig í hópnum sem að sér um tröllin.

„Við biðjumst velvirðingar á þessu, það er ekkert annað hægt að gera,“ segir Haraldur.

Í kjölfar greinarinnar sem Mannlíf birti í gærkvöldi hefur umræða um málið skapast á samfélagsmiðlinum Twitter en sumir spyrja einfaldlega hvort Eyjamenn hafi verið að búa til „miðaldanornabrennuþrettándagrýlulíkneski". 

„Þetta var bara mjög óviðeigandi“

Þegar Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum er spurð út í það hvort það sé ekki óráðlegt að einhver sé tekin fyrir á þennan máta segir hún hluti sem þessa vandmeðfarna. Nauðsynlegt sé að stýra þeim betur.

„Mér finnst óviðeigandi að draga þrettándann inn í þetta með þessum hætti og ég hef komið þeim athugasemdum til formanns ÍBV. Mér finnst að félagið eigi ekki að láta draga sig inn í svona hluti og þetta er ekki það sem þrettándinn stendur fyrir,“ segir Íris.

Þegar því er velt upp hvort þessi hefð, að einhver sé tekinn fyrir með þessum hætti sé orðin barn síns tíma segir hún allt verða þannig þegar samfélagið breytist.

„Hlutir sem þóttu í lagi fyrir tíu árum þykja ekki í lagi í dag og við þurfum bara öll að fylgja þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið og þetta var bara mjög óviðeigandi,“ segir Íris. Hún bætir því jafnframt við  að Þrettándagleðin sé ekki vettvangur fyrir hluti sem þessa. Þrettándagleðin í Vestmannaeyjum sé einstök upplifun sem nauðsynlegt sé að varðveita sem þá frábæru fjölskylduskemmtun sem hún sé. 

„Samfélagið er að breytast og við þurfum öll að taka þátt í þeim breytingum til þess að þær virki eins og þær eigi að virka og þetta er bara óviðeigandi, algjörlega,“ segir Íris.

Uppfært 10.janúar kl. 15.30

Stjórn ÍBV íþróttafélags hefur birt tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem beðist er afsökunar á umtalaðri merkingu á tröllskessu í þrettándafagnaði í Eyjum. Fram kemur að skýrir verkferlar verði nú settir við undirbúning samkomunnar framvegis svo eitthvað þessu líkt endurtaki sig ekki.

Stjórnin tekur fram að reynt hafi verið að ná í Eddu Falak vegna málsins til að biðja hana formlega afsökunar á athæfinu.

„Við sýnum því hins vegar fullan skilning að hún vilji ekki heyra frá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×