Erlent

Eltu sofandi ökumann í korter

Samúel Karl Ólason skrifar
Þýskir lögregluþjónar veittu Teslunni eftirför og reyndu ítrekað að vekja ökumann bílsins.
Þýskir lögregluþjónar veittu Teslunni eftirför og reyndu ítrekað að vekja ökumann bílsins. EPA/LUKAS BARTH-TUTTAS

Lögreglan í Bæjarlandi í Þýskalandi átti í eftirför í síðustu viku sem verður að teljast óhefðbundin. Ítrekaðar tilraunir til að reyna að fá ökumann Teslu rafmagnsbíls til að stöðva gengu ekki eftir en ökumaðurinn reyndist steinsofandi við stýrið. Bílinn var þó stilltur á sjálfstýringu.

Þetta átti sér stað á hraðbraut í Bæjarlandi á miðvikudaginn. Lögregluþjónar reyndu að stöðva bílinn en ökumaður hans svaraði ekki skipunum lögregluþjóna og sýndi heldur engin viðbrögð við flautum. 

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni tóku lögregluþjónar þó eftir því að bíllinn hélt sér í ákveðinni fjarlægð frá lögreglubílnum og sáu að ökumaðurinn hafði hallað sætinu aftur og lá með lokuð augun í bílnum.

Eftir um fimmtán mínútur vaknaði maðurinn og stöðvaði loksins bílinn. Maðurinn var grunaður um að vera undir áhrifum við aksturinn.

Við leit í bílnum fundu lögregluþjónar sérstakan búnað sem notaður er til að plata skynjara bíla frá Tesla til að halda að ökumaðurinn sé með hendurnar á stýrinu. Samkvæmt lögum Þýskalands er notkun sjálfstýringarbúnaðar með þessum hætti bönnuð.

Maðurinn er grunaður um að ógna öryggi annarra í umferðinni en hefur ekki verið ákærður enn. Honum hefur verið gert að skila inn ökuskírteini sínu þar til rannsókn er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×