Hér má sjá stiklu fyrir þáttinn, sem hefur í meira en þrjátíu ár verið fastur liður í hátíðarhöldum fólks vítt og breitt um landið.
Breytt samsetning þáttargesta
Það dregur til tíðinda að sá hópur stjórnmálamanna sem Erla Björg Gunnarsdóttir ritstjóri, Snorri Másson fréttamaður og Telma Tómasson gestgjafi þáttarins taka á móti að þessu sinni er að fernu leyti ólíkur samsetningunni sem mætti á Hótel Borg í fyrra.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins kemur í ár en vegna covid-sýkingar hans kom Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í hans stað í fyrra. Inga Sæland mætir hress til leiks en í fyrra forfallaðist hún, einmitt vegna þess sem var að hennar mati vafasöm viðvera Þórdísar Kolbrúnar í þættinum, sem var nýkomin úr einangrun.
Kristrún Frostadóttir nýr formaður Samfylkingarinnar sest í stól Loga Einarssonar, sem er hættur sem formaður flokksins. Loks verður Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fulltrúi Pírata í stað Halldóru Mogensen í fyrra.

Húsband og áhorfendur í sal
Til viðbótar við líflegar umræður sem vænta má um innlend stjórnmál er í Kryddsíldinni vaninn að svipta hulunni af vali fréttastofunnar á manni ársins. Á því er engin undantekning í ár.
Tekið verður á móti stjórnmálaleiðtogum í sérlega skrautlegu og hátíðlegu myndveri á Suðurlandsbraut við undirleik húsbands og í félagsskap gesta í sal, en gestirnir eru nýjung í þættinum. Þá er skemmtiatriðis að vænta undir lok þáttar eins og hefðin býður.

Kryddsíld opin áskrifendum
Kryddsíld hefst klukkan 14 og stendur til 16. Útsendingin er opin áskrifendum Stöðvar 2 í sjónvarpi og á www.sjonvarp.stod2.is. Þeir sem ekki hafa áskrift að stöðinni eru hvattir til að tryggja sér hana í tæka tíð á þessari vefslóð hér eða í þjónustuveri okkar í síma 1817.
Tryggðu þér áskrift hér: https://kaup.stod2.is/order?productId=41319 . Hafa má samband við þjónustuver okkar í síma 1817 eða á netspjallinu hér.