Eftir þrjá tapleiki í röð í Subway-deild karla í körfubolta vann Stjarnan góðan 11 stiga sigur gegn botnliði KR í kvöld, 99-88.
Stjörnumenn buðu KR-ingum uppá kennslustund í körfubolta í upphafi leiks í Garðabænum í kvöld. KR-ingar mættu til leiks án Dags Kárs Jónssonar sem var hvergi sjáanlegur, en Matti Sig var aftur á móti mættur til leiks í fyrsta sinn í úrvalsdeild síðan vorið 2021.
KR voru að hitta afleitlega í byrjun meðan Stjörnumenn keyrðu upp hraðann og gátu í raun valið hvaðan körfurnar komu. Staðan 29-10 eftir fyrsta leikhlutann og útlitið ekki bjart fyrir lánlausa KR-inga. Það hýrnaði þó aðeins yfir leik þeirra í 2. leikhluta en þó ekki meira en svo að munurinn hélst áfram 19 stig og brött brekka framundan, jafnvel sleip og snjóþung í ofanálag. Snjóruðningstækin eru fá í Reykjavík þessa dagana svo að ekki var útlitið bjart fyrir seinni hálfleikinn.
Stjörnumenn hafi verið í töluverðu basli með þriðju leikhlutana í vetur og það varð lítil breyting á í kvöld. KR-ingar mættu töluvert líflegri til leiks í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn í níu stig fyrir lokaátökin þar sem EC Matthews dró vagninn með hverju gegnumbrotinu á fætur öðru. Stjarnan réð lítið við hann þegar hann tók af skarið, en leyfðu honum annars að skjóta af vild fyrir utan þar sem hann var aðeins með 1 þrist ofan í í 7 tilraunum á þessum tímapunkti leiksins og endaði 2 af 9.
Þessi drög að endurkomu KR útheimtu mikla orku og var hún einfaldlega á þrotum í fjórða leikhluta, sem Stjarnan vann 25-23, þar af komu 14 stig frá Robert Turner, sem ákvað að kveðja Stjörnumenn með stæl.
Lokatölur 99-88 og hefði sigurinn í raun getað orðið miklu stærri en KR björguðu sér frá algjörri niðurlægingu með töluvert skárri leik í seinni hálfleik en þeim fyrri.
Af hverju vann Stjarnan?
KR-ingar grófu sér djúpa holu í upphafi leiks og komust aldrei nema hálfa leið uppúr henni. KR-ingar virkuðu á köflum ansi andlausir en Matthías Orri kom þó með ferskan andvara með sér inn á völlinn, og vonandi fyrir KR nær hans ákefð og sigurvilji að smita eitthvað út frá sér.
Hverjir stóðu uppúr?
Robert Turner tók leikinn einfaldlega yfir í 4. leikhluta, ekki í fyrsta sinn. Hann endaði með 34 stig og 7 fráköst. Næstur honum í stigaskori kom Arnþór Freyr Guðmundsson með 21 stig, en hann var sjóðheitur fyrir utan í kvöld, 6 af 9 í þristum.
Hjá KR var EC Matthews mjög afgerandi stigahæstur með 31 stig og bætti við 6 fráköstum, en gerði lítið af því að finna samherja sína, 0 stoðsendingar frá honum í kvöld. Matthías Orri Sigurðsson átti fína spretti í endurkomu sinni þó svo að skotin hafi ekki dottið utan af velli, en hann endaði stoðsendingahæstur KR-inga, með 4 slíkar.
Hvað gekk illa?
Sóknarleikur KR var afleitur framan af leik. Liðinu vantar sárlega leikstjórnanda sem getur stjórnað spilinu og dreift boltanum á milli manna. Kannski er svarið komið ef Matti heldur áfram með liðinu.
Hvað gerist næst?
Liðin eru komin í frí út árið en KR-ingar fara til Grindavíkur 5. janúar, að því gefnu að það verði fært um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg, en Stjarnan tekur á móti Valsmönnum sama kvöld.
Við erum bara á þeim stað að það er bullandi botnbarátta
Sigur Stjörnunnar var nokkuð öruggur þegar upp var staðið, þrátt fyrir að Stjarnan hafi gert heiðarlega tilraun til að kasta leiknum frá sér í þriðja leikhluta. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, gaf KR-ingum fullt kredit fyrir þeirra baráttu en sagði að sigurinn væri það eina sem skipti máli þegar upp væri staðið, enda liðið hans í bullandi botnbaráttu.
„KR-ingar bara spýttu í og gerðu vel, bara feginn að þetta hafðist. Við erum bara á þeim stað að það er bullandi botnbarátta. Við erum þá komnir með 5 sigra núna og það var bara lífsnauðsynlegt að búa til smá pláss á botninum, það skiptir öllu.“
Það eru breytingar framundan hjá Stjörnunni, en þeir tilkynntu í leikslok að Robert Turner og Julius Jucikas væru báðir á förum frá liðinu. Er búið að finna nýja leikmenn til að fylla skörð þeirra?
„Eitthvað aðeins, en ekki alveg þó. Ég vil bara þakka þeim fyrir þeirra framlag, búnir að vera algjörir atvinnumenn og bara synd að sjá þá fara. Góðir drengir báðir tveir. En Robert var bara keyptur út til Frakklands, fær frábært tilboð og góðan séns og þannig fer þetta.“
Sagan segir að Dagur Kár, leikmaður KR, eigi að fylla skarðið sem Turner skilur eftir sig. Arnar vildi þó ekkert kannast við þær sögur en útilokaði þó alls ekki endurkomu Dags í uppeldisfélagið.
„Ég veit ekki neitt. Ég var búinn að heyra einhvern orðróm um að hann væri hættur í KR, svo hringdi einhver fréttamaður frá ykkur áðan og spurði mig hvort hann væri að koma en ég veit það ekki. En ef hann er laus allra mála hjá KR þá munum við heyra í honum hljóðið. En ég ætlaði nú bara að reyna að ræða það við Helga hvað væri að frétta.“
Það verður spennandi að sjá hvort Helgi lætur eitthvað meira uppi við Arnar en við blaðamann, en Helgi sagði í viðtali eftir leik að Dagur væri einfaldlega meiddur og fjarverandi í kvöld vegna persónulegra ástæðna.