Körfubolti

Dæmalaus Doncic skrifar söguna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gleðin var við völd hjá Doncic í gær.
Gleðin var við völd hjá Doncic í gær. Ron Jenkins/Getty Images

Slóveninn Luka Doncic heldur áfram að gera magnaða hluti í NBA-deildinni í körfubolta vestanhafs. Hann sýndi eina bestu einstaklingsframmistöðu sem sést hefur í nótt og skráði sig í sögubækurnar.

Doncic fór eins og oft áður fyrir liði Dallas Mavericks sem vann 126-121 sigur á New York Knicks eftir framlengdan leik.

Sá slóvenski skoraði heil 60 stig í leiknum auk þess að gefa tíu stoðsendingar og taka heilt 21 frákast. Hann varð þar með sá fyrsti í sögu deildarinnar til að afreka það að skora 60 stig eða fleiri, taka yfir 20 fráköst og gefa yfir tíu stoðsendingar í einum og sama leiknum.

Dallas liðið leitar mikið til Doncic sem tók 31 skot úr opnum leik í gær, rúmlega tvöfalt meira en næsti maður. Hann var hins vegar traustsins verður og skoraði úr 21 af þeim skotum, með nýtingu upp á tæplega 70 prósent.

16 af stigum hans komu þá af vítalínunni, þar sem hann skoraði úr 16 af 22 vítaskotum sínum í leiknum. Spencer Dinwiddie tók næst flest vítaskot fyrir Dallas í leiknum, fjögur talsins.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×