Innlent

Allt var hreint og fagurt og sálin líka á jólunum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gissur Páll mætti í 105 ára afmælið og söng nokkur af uppáhalds lögum Þórhildar en Gissur er í miklu uppáhaldi hjá henni.
Gissur Páll mætti í 105 ára afmælið og söng nokkur af uppáhalds lögum Þórhildar en Gissur er í miklu uppáhaldi hjá henni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Jólin voru óskaplega einföld, sálmar voru sungnir, allt var hreint og fagurt og sálin líka“, segir elsti Íslendingurinn, Þórhildur Magnúsdóttir, sem fagnaði 105 ára afmælinu sínu í gær, 22. desember.

Að sjálfsögðu fékk Þórhildur afmælissöng frá fjölskyldunni undir styrkri stjórn Gissurar Páls Gissurarsonar, söngvara. Þórhildur er ótrúlega ern og lítur vel út, maður trúir því bara alls ekki að hún sé orðin 105 ára. Hún á um 90 afkomendur.

En jólin í huga Þórhildar, hvernig eru þau?

„Jólin eru alltaf yndisleg og hátíðleg, það var alltaf svo mikil helgi yfir jólunum í gamla daga, það var ekkert rafrænt, sem truflaði. Ef þú ætlar að halda jól þá heldur þú jól. Ég veit ekki hvort að börnin vita fyrir hvað jólin standa,“ segir Þórhildur.

Fimm ættliðir í beinan kvenlegg hjá Þórhildi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvernig voru jólin í þinni æsku?

„Þau voru óskaplega einföld, það var kertaljós og kveðin lög eins og sagt er. Svo voru sálmar sungnir, allt var hreint og fagurt og sálin líka. Það var ekki mikið lagt svo mikið upp úr mat, það var meira lagt upp úr söng og hvað gerðist á jólum, trúarbrögðin eiginlega,“ bætir Þórhildur við.

Og meira af fimm ættliðum í beinan kvenlegg hjá Þórhildi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En á hún sér einhverja drauma jólagjöf?

„Nei, nei, það var ekkert í þá daga verið að tala um jólagjafir. Það var miklu heldur að halda jólin heilög heima og halda þau þannig að allir voru samstíga að gera allt fallegt,“ segir elsti núlifandi Íslendingurinn, Þórhildur Magnúsdóttir.

Þórhildur og Magnús Hlynur, fréttamaður, sem er að gera þátt um hana, sem sýndur verður á Stöð 2 á nýju ári.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×