Friðargata heitir til að mynda nú Lenínstræti og skilti borgarinnar við inngang hennar hefur verið málað hvítt, blátt og rautt og nafn borgarinnar er nú stafað á rússnesku.
Í október rifu Rússar niður minnisvarða um Holodomor, sem var manngerð hungursneyð frá 1932 til 1933. Milljónir Úkraínumanna dóu úr hungri vegna ástandsins sem leiðtogum Sovétríkjanna er kennt um.
Rússar byrjuðu nýverið að rífa rústir sögufrægs leikhúss sem loftárás var gerð á þann 16. mars en þá höfðu fjölmargir óbreyttir borgarar leitað sér skjóls í leikhúsinu. Rannsókn AP fréttaveitunnar á sínum tíma sýndi fram á að mögulega hafi sex hundruð manns, og þar á meðal fjölmörg börn, dáið.
Íbúar segja mikla nálykt hafa borið frá leikhúsinu í allt sumar en það var afgirt og virðist hafa verið rifið að fullu í gær.
russians are dismantling Mariupol drama theater. They irreversibly destroy the remaining traces of one of their biggest war crimes. On March 16 russians deliberately bombed the theater, which local residents were using as a bomb shelter, having killed a few hundreds civilians pic.twitter.com/yKQNaVlRqD
— Olena Halushka (@OlenaHalushka) December 22, 2022
86 daga umsátur
Rússar gerðu snemma í innrásinni atlögu að Maríupól en borgin er einungis um fjörutíu kílómetra frá landamærum Rússlands og mikilvæg hafnarborg við Asóvhaf. Borgin var umkringd og hófst 86 daga umsátur sem fól meðal annars í sér að verjendur og íbúar borgarinnar höfðu ekki aðgang að vatni og öðrum nauðsynjum og gerðar voru linnulausar stórskotaliðsárásir á borgina.
Borgin var svo gott sem lögð í rúst en óljóst er hvort raunverulegt mannfall meðal óbreyttra borgara muni nokkurn tímann líta dagsins ljós.

Segja tugi þúsunda hafa dáið
Blaðamenn AP hafa nú staðið í annarri rannsókn á stöðunni í Maríupól. Sú rannsókn fól í sér fjölmörg viðtöl við íbúa og embættismenn auk þess að gervihnattamyndir voru skoðaðar.
Þær sýndu að á undanförnum átta mánuðum voru um 8.500 nýjar grafir grafnar í einungis einum af kirkjugörðum borgarinnar. Minnst 10.300 grafir hafi verið grafnar í borginni allri en allar líkur séu á því að þúsundir líka hafi aldrei ratað í kirkjugarð.
Hér að neðan má sjá myndefni AP frá Maríupól, þar sem farið er yfir nýja rannsókn fréttaveitunnar.
Þegar borgin féll í hendur Rússa í maí áætluðu embættismenn að minnst 25 þúsund óbreyttir borgarar hefðu fallið í árásum Rússa. Viðmælendur AP segja að raunverulegur fjöldi látinna sé þrisvar sinnum hærri eða jafnvel enn hærri. Byggja þeir það á samtölum við starfsmenn sem hafa unnið að því að safna líkum af götum borgarinnar og úr rústum húsa.
Verið er að rífa fjölmörg hús í borginni en Rússar eru þeir einu sem fá að koma nærri brakinu og segja íbúar að yfirlýst ástæða þess sé að forðast slys. Aðstoðarmaður úkraínsks borgarstjóra Maríupól segir þó að líklega sé ástæðan sú að fólk sjá ekki líkin í rústunum.