Fótbolti

Rannsaka hvernig Saltkallinn komst inn á völlinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nusret Goekce, eða Salt Bae, með heimsmeistarastyttuna.
Nusret Goekce, eða Salt Bae, með heimsmeistarastyttuna. getty/Dan Mullan

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, ætlar að rannsaka hvernig tyrkneski kokkurinn Nusret Gokce, betur þekktur sem Salt Bae, komst inn á völlinn eftir úrslitaleik HM.

Einhverra hluta vegna var Salt Bae mættur út á grasið á Lusail leikvanginum eftir leikinn á sunnudaginn. Hann hélt á og kyssti heimsmeistarastyttuna og lét mynda sig með argentínsku heimsmeisturunum.

Salt Bae braut mjög strangar reglur FIFA þegar hann handlék heimsmeistarastyttuna. Fyrir utan sigurliðið mega aðeins fyrrverandi sigurvegarar HM, háttsettir embættismenn innan FIFA og þjóðhöfðingjar koma við styttuna.

FIFA sendi frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að sambandið ætli að rannsaka hvernig Salt Bae og aðrir einstaklingar komust inn á völlinn eftir verðlaunaafhendinguna.

Líklegt þykir að Salt Bae hafi verið á úrslitaleiknum í boði Giannis Infantino, forseta FIFA, en þeir eru miklir vinir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×