Lífið

Forseti Íslands minnti á að það væri alltaf von

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Friðarsúlan og Viðey í bakgrunni.
Friðarsúlan og Viðey í bakgrunni. Vísir/Egill

Árleg vetrarsólstöðuganga Píeta-samtakanna var gengin frá Klettagörðum að Skarfavita í Reykjavík í gærkvöldi. Á dimmasta degi ársins er þeirra ástvina minnst sem féllu fyrir eigin hendi. Fjöldi fólks lagði leið sína í gönguna. Meðal þeirra forseti Íslands.

„Ég vildi að ég gæti fundið orð sem sefa að fullu söknuð og sorg. Ég vildi að ég gæti fundið orð sem veita öllum birtu og yl. Ég vildi að ég gæti fundið leiðir til að bægja myrkrinu frá þegar það er hvað svartast í hugum fólks. Og ég vildi að allt fólk viti að það er alltaf von. Það er alltaf von,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti í ávarpi sínu.

Hjónin Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson fluttu fagra tóna áður en lagt var upp í gönguna. Við Skarfavita naut fólk samveru, kveikti á kertum og skrifuðu margir skilaboð um söknuð og ást á gula vegginn á vitanum.

Yfir jól og áramót munu kveðjurnar standa á veggnum undir blikkandi ljósi og minna hvern sem kemur þar að að ástin er eilíf. Þá kom fólk líka saman á Akureyri og fagnaði því að lengri og bjartari dagar eru fram undan.

Að neðan má sjá myndir sem Egill Aðalsteinsson tökumaður tók í göngunni.

Fólk skrifaði skilaboð á gula miða og límdi á vitann.Vísir/Egill
Kveikt var á friðarkertum.Vísir/Egill
Fjöldi fólks lagði leið sína í gönguna.Vísir/Egill

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.