Lífið samstarf

Nýr ilmur frá Fischersundi - óður til bakgarða Reykjavíkur

Fischersund
Nýi Ilmurinn geymir græna og eteríska angan.
Nýi Ilmurinn geymir græna og eteríska angan.

Ilmgerðin Fischersund hefur sent frá sér nýjan ilm, Fischersund no. 101. Ilmurinn geymir hinn græna og eteríska angan sem minnir á bakgarða Reykjavíkur. Samhliða ilminum kemur út lag, vídeóverk og ljósmyndasería.

Fjölskyldan sem stendur að Fischersund ilmgerð.

„Við leitumst alltaf við að skapa heildrænan heim í okkar ilmgerð en við erum listamannarekið fyrirtæki þar sem hvert okkar hefur sérstöðu,“ útskýrir Lilja Birgisdóttir, ljósmyndari og listakona, en að Fischersundi standa auk hennar systkini hennar, tónlistarmaðurinn og myndlistarmaðurinn Jónsi, myndlistar og vídjólistakonan Ingibjörg og ilmkonan og þúsundþjalasmiðurinn Sigurrós. 

Kærastar okkar Ingu, Sindri Már Sigfússon og Kjartan Holm eru tónlistarmenn og sjá um að skapa hljóðheim Fischersunds“ segir Lilja.

Grösugir bakgarðar miðborgarinnar innblásturinn

„Þetta er „grænn“ ilmur sem byggir á upplifuninni af að ganga um miðbæinn að sumarlagi og sjá alla bakgarða úr sér vaxna og finna ilminn af þeim koma á móti sér. Á Íslandi er svo mikill grámi og slydda nema þessa tvo mánuði á ári þegar sólin skín allan sólarhringinn og garðarnir lifna við. Helstu nóturnar í Fischersundi no. 101 er kerfill, hvönn, hundasúra, gras, fíflar og ösp.  Kerfill og hvönn eru meira að segja tegundir sem fólk hatar að fá í garðana sína en þetta eru magnaðra jurtir með mikinn ilm og lækningamátt. 

Það er svo mikil fegurð í okkar úfnu, hlýju og úr sér vöxnu bakgörðum og ilmurinn er óður til þeirra, lífsins í borginni.“ 
Gróskumiklir bakgarðar Reykjavíkur skapa spennandi ilmheim.

„Við gáfum út vínilplötu samhliða ilminum. Á einni hlið plötunnar er lagið Bakgarðar og á hinni hliðinni hljóðupptaka úr bakgarði. Lagið er samið af Jónsa, Sin Fang og Kjartani Holm og útgefið af INNI music. Við fjölskyldan tókum öll þátt við gerð lagsins og unnum allt listrænt myndefni saman ásamt Fischersund teyminu Rachel Jonas og Erlu Franklín." 

„Tákn ilmsins er plaststóllinn sem sjá má nánast í hverjum bakgarði og er eitt af því fáa sem lifir íslenska veðrið af. Við hönnuðum plaststóla skúlptúr sem sjá má í verslun okkar í Fischersundi. 

Með öllum ilmvötnum okkar semjum við ilmljóð til þess að tengjast ilmheimi þess betur:

“Lúnir garðstólar í stafla upp við vegg

Blómapottur fullur af vatni og sígarettustubbum

Kerfill kaffærir sólbakaða stétt

Sláttuvél tætir upp fífla og hundasúrur

Ómur af fjarlægu partýi

Nýfallinn snjór leggst yfir ófrágengið trampólín

Sólber detta af nöktum greinum eitt af öðru”


Ilmupplifun bíður gesta

Ilmleiðsagnir Fischersunds eru mikil upplifun. 

Í verslun Fischersunds í grjótaþorpinu er gestum og gangandi boðið upp á ilmupplifanir sem hægt er að bóka í gegnum heimasíðu þeirra  eða á staðnum.

„Við byrjum á því að bjóða gestum upp á heimagerðan snaps eða te með lækningajurtum og svo tökum við gesti á vit ilm ævintýra.” segir Lilja. Þetta er heill heimur, fullur af sögu, tilfinningum og upplifunum. Við reynum að skilja við alla með smá innblástur í hjartanu.

Við vinnum mikið með ilm minningar og þessi sterku tengsl milli þefskynsins og minnis. Þefskynið er svo mikilvægur þáttur í okkar lífi og hefur mikil áhrif á líðan okkar. Maður pælir ekki mikið í nefinu en þefskynið er elsta skynfærið okkar og beintengt minningum okkar og tilfinningum. Og þarna liggur snertipunkturinn sem okkur svo finnst spennandi enda vinnum við mikið með ilm minningar í okkar ilmum. “

„Við byrjum á því að bjóða gestum upp á heimagerðan snaps eða te með lækningajurtum og svo tökum við gesti á vit ilm ævintýra.”

Jólakertið orðið að hefð

Síðustu dagarnir fram að jólum eru annasamir en nýr ilmur er ekki það eina úr smiðju Fischersunds fyrir þessi jól.

„Jólakertið okkar sem við vinnum með Rammagerðinni er orðið að hefð yfir hátíðirnar og er það unnið út frá jólahefðum sem mamma og pabbi muna eftir, mjúkur ilmur af mandarínum með kanil, greni og kandís. Svo bættum við við hinum heilögu olíum frankensens og myrru þannig að útkoman er hátíðlegur og mjúkur ilmur.

Jólaglögg og ljóðalestur

Á morgun, fimmtudaginn 22. desember bjóða Fischersund og ljóðahópurinn Svikaskáld í ilmandi jólaglögg og ljóðalestur í tilefni aðventunnar.

„Grjótaþorpið er lítið og sætt en þar eru einungis þrjú hús. Fischersund 3 þar sem við erum og lítið gistiheimili og svo á ská á móti okkur er hið fallega Gröndalshús þar sem Svikaskáld hafast við. Við erum miklir aðdáendur og hefur alltaf langað að gera eitthvað með þeim. Við unnum saman að sýningunni Hliðarheimur Plantna sem er opin öllum og munu svikaskáld lesa upp úr textum sýnum fyrir gesti ásamt því að Sindri mun töfra fram dýrindis jólaglögg. Gestir geta því heimsótt bæði húsin og rölt á milli með jólaglöggið frá klukkan 16-18.

Við mælum með heimsókn í miðbæinn fyrir jólin."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×