Skoðun

Grjóthart efnahagsmál að tryggja líffræðilega fjölbreytni

Aðalheiður Snæbjarnardóttir skrifar

Fréttirnar sem bárust frá COP15-fundinum í Montreal í vikunni um aðgerðir til að verja líffræðilega fjölbreytni eru sannarlega ánægjulegar. Markmiðin eru metnaðarfull en þau snúast um að vernda, viðhalda og endurheimta vistkerfi, koma í veg fyrir frekari útdauða tegunda og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika. Meðal annarra markmiða er að stuðla að sjálfbærri notkun á líffræðilegum auðlindum og að sjá til þess að búsvæði tegunda sem mannkynið nýtir geti staðið undir sér en hnigni ekki vegna ofnýtingar og mengunar. Samkvæmt samkomulaginu ætla um 190 ríki að vernda 30% af landi og hafsvæðum jarðar fyrir árið 2030.

Hvað verður um villta fiskistofna?

En hvaða máli skiptir þetta fyrir banka eins og Landsbankann, þar sem ég starfa? Svarið er: Heilmiklu! Líffræðileg fjölbreytni er nefnilega grundvallaratriði í efnahagslegri velferð Íslendinga eins og annarra jarðarbúa. Um helmingur landsframleiðslu heimsins byggist á nýtingu á náttúrugæðum, samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna. Það er líka auðvelt að færa rök fyrir því að við Íslendingar, sem reiðum okkur í miklum mæli á veiðar úr villtum fiskistofnum, eigum enn meira undir því að tryggja líffræðilega fjölbreytni en flestar aðrar þjóðir. Ef við grípum ekki til aðgerða til að draga úr mengun og sóun sem allra fyrst mun það koma niður á okkur öllum, ekki síst vegna efnahagslegra afleiðinga af völdum hlýnunar jarðar og minni náttúrugæða.

Frumkvæðisvinna myndar grunn að regluverkinu

Samkomulagið á COP15-fundinum í Montreal hefur vakið töluverða athygli og beint sjónum heimsbyggðarinnar að mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni. Á undanförnum árum hefur aðaláherslan í umhverfisvernd verið á loftslagsmálin, að gefnu tilefni. Bankar og fjármálafyrirtæki hafa þar mjög mikilvægu hlutverki að gegna, enda mun seint nást árangur í loftslagsmálum nema fjármagni verði beint á rétta staði. Bankastarfsemi sem slík losar reyndar lítið magn af gróðurhúsalofttegundum. Hin raunverulegu áhrif sem bankar geta haft er í gegnum lána- og eignasöfn. Árið 2019 tók Landsbankinn þátt í að þróa loftslagsmæli undir merkjum PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials) sem gerir fjármálafyrirtækjum kleift að mæla og greina frá kolefnislosun frá lána- og eignasöfnum. Bankinn gerði þetta að eigin frumkvæði og án þess að nokkrar reglur eða opinberar kröfur um slíka upplýsingagjöf hefðu tekið gildi. Tveimur árum síðar birtum við niðurstöður um útblásturinn í fyrsta skipti, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. Á grundvelli þessara gagna getum við sett okkur markmið, mælt árangurinn og komið auga á tækifæri til að gera betur. Nú er svo komið að kröfur Evrópusambandsins um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja í loftslagsmálum snúa bæði að því að meta og greina umbreytingar- og raunlæga áhættu af völdum loftslagsbreytinga, ásamt því að meta lána- og eignasöfn. Til þess að meta umbreytingar- og raunlæga áhættu er stuðst við aðferðarfræði TCFD (e. Task force for climate related financial disclosure) en fjármálafyrirtæki nýta að miklu leiti PCAF-gögn við notkun hennar. Þannig hefur verkefni sem unnið var af þeirri hugsjón að ná að meta á samræmdan hátt kolefnislosun frá lána- og eignasöfnum fjármálafyrirtækja, orðið eitt af undirstöðuatriðum þess að uppfylla upplýsingaskyldu Evrópusambandsins um mat á loftslagsáhættu.

Mælingar eru grundvöllur að árangri

Samkomulagið á COP15 varðar ekki bara aðgerðir sem stjórnvöld geta gripið heldur var líka m.a. samið um að stór og fjölþjóðleg fyrirtæki greini frá áhættu sem þau standa frammi fyrir vegna hnignunar lífríkisins og hvaða áhrif fyrirtækin sjálf hafa á líffræðilega fjölbreytni. Gangi þetta eftir mun það vafalaust hafa mikið að segja og þess verður örugglega ekki langt að bíða þar til þessar reglur muni ná til fleiri fyrirtækja en bara þeirra allra stærstu. Vandinn er samt sá að rétt eins og varðandi loftslagmálin á sínum tíma, þá liggur ekki fyrir samræmdur mælikvarði um hvernig eigi að mæla áhrif fyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni - ekki ennþá, það er að segja. Nú er unnið að því að útbúa slíkan mælikvarða fyrir fjármálafyrirtæki og eru þar að verki systursamtök PCAF – sem ég talaði um hér að ofan – en þau heita PBAF (Partnership for Biodiversity Accounting Financials). Þetta hljómar kannski ekki mjög spennandi en það er það nú samt. Staðreyndin er nefnilega sú að ef fjármálafyrirtæki – eða önnur fyrirtæki – geta ekki mælt með samræmdum hætti hvaða áhrif þau hafa á umhverfið, hvort sem um er að ræða loftslagsmál eða líffræðilega fjölbreytni, þá munum við ekki ná nægilega góðum árangri. Þá er ekki hægt að bera fyrirtæki saman, vega og meta hvaða umhverfisáhrif þau hafa, hvort þau stuðli að betri heimi eða verri. Og þá er ekki heldur hægt að taka upplýstar ákvarðanir um hvert maður á að beina viðskiptunum sínum eða fjárfestingum.

Höfundur er sjálfbærnistjóri Landsbankans.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×