Sport

Anníe Mist og Katrín Tanja keppa saman í liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/thedavecastro

Þeim fjölgar íslensku keppendunum sem taka þátt í fyrsta stóra CrossFit móti ársins sem er Wodapalooza mótið í Miami í janúar.

Sara Sigmundsdóttir keppir þar í einstaklingskeppni og Sólveig Sigurðardóttir í liðakeppni. Nýjustu fréttirnar snúa að tveimur íslenskum afrekskonum sem ætla að snúa bökum saman á mótinu.

Ísland á nefnilega tvo þriðju af sannkölluðu stjörnuliði á Wodapalooza í ár en það verða ljóst eftir að forráðamenn mótsins staðfestu þátttökuna í gær.

Það er óhætt að segja að þetta séu spennandi fréttir ekki síst fyrir okkur Íslendinga en líka fyrir allan CrossFit heiminn.

Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir ætla að keppa saman í liði á Wodapalooza og þær fá heldur engan aukaleikara með sér.

Anníe Mist og Katrín Tanja hafa báðar unnið tvo heimsmeistaratitla á ferlinum og með þeim verður undrabarnið Mal O’Brien. Mal O’Brien endaði í öðru sæti á síðustu heimsleikum en hún er aðeins átján ára gömul og á mjög bjarta framtíð fyrir sér í sportinu.

Anníe Mist keppti í liðakeppninni á síðustu heimsleikum en þetta verður í fyrsta sinn sem vinkonurnar keppa í sama liði á svo stóru móti.

Það er líka mikill happafengur fyrir Wodapalooza mótið að fá þessar stjórstjörnur CrossFit íþróttarinnar til að taka þetta skref saman að keppa hlið við hlið. Það þekkja flestir það hvað þær eru miklar vinkonur sem styðja vel við bakið á hvorri annarri en nú fáum við tækifæri til að sjá þær keppa saman í liði.

Wodapalooza mótið fer fram 12. til 15. janúar næstkomandi í Miami á Flórída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×