Innlent

Flugmönnum og -liðum Icelandair flogið frá Keflavík til Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölmargir farþegar eru strandaglópar á Keflavíkurflugvelli.
Fjölmargir farþegar eru strandaglópar á Keflavíkurflugvelli. Vísir

Icelandair hefur ákveðið að fljúga starfsfólki sínu, sem situr fast ásamt mörg hundruð farþegum á Keflavíkurflugvelli, til Reykjavíkur. Þetta er gert til að tryggja hvíldartíma starfsmanna. Um er að ræða 35 starfsmenn.

Guðni Sigurðsson, samskiptastjóri hjá Icelandair, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Reykjanesbraut hefur verið lokuð frá því í morgun og kemst fólk því ekki leiðar sinnar til höfuðborgarsvæðisins.

Ástand er á Keflavíkurflugvelli þar sem mörg hundruð farþegar eru strandaglópar sökum veðurs. Veðurspáin fyrir morgundaginn er áfram svört.

Guðni segir að Icelandair fylgist grannt með og upplýsi farþega þegar örugg veðurspá liggi fyrir. Þegar hægt er að fljúga aftur þurfi ennfremur að vinna upp raskanirnar sem urðu í dag og bæta við ferðum. Icelandair aflýsti á fjórða tug ferða frá landinu og svipuðum fjölda til þess í dag.

„Þetta er mjög snúin staða svona rétt fyrir jólin,“ sagði Guðni við Vísi fyrr í dag.

Flugfélagið vinni nú að áætlun og sviðsmyndum um hvernig það geti náð að rétta áætlunina af. Farþegar sem eiga bókað far á næstu dögum megi eiga von á breytingum. Mælir Guðni með því að þeir fylgist vel með skilaboðum á vefsíðu Icelandair, í tölvupóstum og smáskilaboðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×