Innlent

Kennurum varð að ósk sinni og skóla­stjórinn sagði upp

Árni Sæberg skrifar
Skólastjóri Hvassaleitisskóla hefur sagt upp störfum.
Skólastjóri Hvassaleitisskóla hefur sagt upp störfum. Vísir/Vilhelm

Skólastjóri Hvassaleitisskóla hefur óskað eftir því að láta af störfum og Reykjavíkurborg hefur fallist á ósk hans. Fyrir mánuði undirrituðu fjölmargir kennarar og starfsmenn skólans yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vantrausti á hendur skólastjóranum.

Í tölvubréfi sem sent var á foreldra barna í skólanum segir að foreldrar verði upplýstir á næstu dögum um það hvernig stjórnun skólans verður háttað á vorönn, sem hefst að loknu jólafríi.

Undir bréfið rita Dagný Kristinsdóttir skólastjóri og Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Hvorki hefur náðst í skólastjórann né Helga við vinnslu fréttarinnar.

Tæplega helmingur vildi skólastjórann frá

Vísir greindi frá því fyrir mánuði síðan að af 47 starfsmönnum skólans hafi 22 ritað undir vantraustsyfirlýsingu á hendur skólastjóranum. Þá rituðu þrír fyrrverandi starfsmenn einnig undir. 

„Afstaða starfsfólks er skýr: Við viljum að skólastjórinn stígi til hliðar,“ sagði í yfirlýsingunni sem hópurinn sendi á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Þá kom einnig fram að skólastjórinn hafi verið í leyfi til mánaðamóta nóvember og desember. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi hafið störf á ný áður en hann sagði upp störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×